Íslenski boltinn

Hrósaði Davíð Smára í hástert: „Minnir á Arnar Gunn­laugs­son í við­tölum“

Íþróttadeild Vísis skrifar
Davíð Smári Lamude er á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari í efstu deild.
Davíð Smári Lamude er á sínu fyrsta tímabili sem þjálfari í efstu deild. vísir/hulda margrét

Atli Viðar Björnsson hefur hrifist af framgöngu Davíðs Smára Lamude, þjálfara Vestra, í sumar.

Davíð tók við Vestra fyrir síðasta tímabil eftir að hafa gert góða hluti með Kórdrengi árin þar á undan. Undir stjórn Davíðs komust Vestramenn upp í Bestu deildina í gegnum umspil og eru með tíu stig í 9. sæti hennar, þrátt fyrir að hafa ekki enn spilað á sínum heimavelli á Ísafirði.

Atli Viðar og Henry Birgir Gunnarsson fóru yfir fyrsta þriðjung Bestu deildarinnar ásamt Ingva Þór Sæmundssyni í Besta sætinu, hlaðvarpi íþróttadeildar Sýnar, og ræddu þar meðal annars um Davíð og Vestramennina hans.

„Þeir hafa lent í miklum hremmingum með varnarleikinn sinn og eftir þessa tvo sigurleiki, gegn KA og HK, kom smá dýfa. Þá fannst manni vera að fjara undan þeim og það væri eins og þeir væru að bíða eftir því að komast vestur og ná að búa til einhverja stemmningu. En svo náðu þeir mjög sterku stigi vestur í bæ og unnu svo Stjörnuna. Það finnst mér merki um ótrúlega seiglu og ótrúlegan karakter í þessu liði,“ sagði Atli Viðar.

„Ég held að það sé fyrst og þjálfarinn þeirra sem býr það til. Ég hef verið ofboðslega hrifinn af því hvernig hann hefur komið fram fyrir hönd þessa liðs,“ sagði Atli Viðar. 

„Maður sér á honum hvernig honum líður en hann er alltaf kurteis og einlægur. Hann minnir dálítið á Arnar Gunnlaugsson í viðtölum. Hann er heill og segir nákvæmlega það sem hann er að upplifa en það er ekki til einhver gorgeir eða leikþáttur í honum. Ég er ótrúlega hrifinn af því hversu einlægur og flottur hann er í viðtölum og með leikmennina sína.“

Næsti leikur Vestra er gegn Fylki í Árbænum 18. júní og ef allt gengur eftir verður svo fyrsti alvöru heimaleikur þeirra Vestramanna gegn Valsmönnum fjórum dögum seinna.

Hlusta má á Besta sætið í spilaranum hér fyrir ofan. Þátturinn er einnig aðgengilegur á Spotify sem og öllum hlaðvarpsveitum.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×