Lífið

Flestir vilja kalla Björn „forsetaherra“

Jón Þór Stefánsson skrifar
Verðandi forsetaherra Björn Skúlason er fyrir miðju myndarinnar í rosalegu kosningapartýi Höllu Tómasdóttur.
Verðandi forsetaherra Björn Skúlason er fyrir miðju myndarinnar í rosalegu kosningapartýi Höllu Tómasdóttur. Vísir/Vilhelm

Skiptar skoðanir eru á því hvað fólk vill kalla Björn Skúlason, eiginmann Höllu Tómasdóttur og þar af leiðandi fyrsta eiginmann forseta Íslands. Lesendum Vísis líst best á að kalla hann forsetaherra eða hreinlega eiginmann forseta.

Makar forseta Íslands hafa hingað til einungis verið konur, og þær löngum verið kallaðar forsetafrúr. Því liggur ekki fyrir hvað skyldi kalla Björn þegar Halla tekur við embætti.

Vísir gerði óvísindalega könnun og spurði lesendur hvað þeir vilja kalla Björn þegar hann sest að á Bessastöðum. Flestum líst vel á „forsetaherra“, eða 31 prósentum svarenda. Fast á hæla herrans kemur „eiginmaður forseta“ en þrjátíu prósent völdu það.

Tólf prósent völdu „forsetabóndi“ og ellefu prósent „forsetamaki“. Níu prósent vilja að titillinn sé sá sami og þegar kona er maki forseta og vilja að Björn verði hreinlega „forsetafrú“.

Einungis sex prósentum svarenda leist á „forsetamaður“ og enn færri völdu „forsetakarl“, eða eitt prósent þeirra sem tóku þátt í könnuninni.

Þess má geta að eftir að Vísir setti sína könnun í loftið tóku Rúv og Mbl upp á því sama, en þó voru svarmöguleikar ekki alveg þeir sömu. 

Þegar þessi frétt er skrifuð eru niðurstöður þeirra kannana í sömu átt. Flestir vilja kalla Björn „forsetaherra“.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×