Fótbolti

Þýskar komu til baka í Pól­landi

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lea Schüller og Laura Freigang fagna.
Lea Schüller og Laura Freigang fagna. Mateusz Slodkowski/Getty Images

Þýska landsliðið er áfram með fullt hús stiga í A-deild undankeppni Evrópumóts kvenna í fótbolta sem fram fer í Sviss á næsta ári. Þýskaland lagði Pólland 3-1 ytra í dag en um er að ræða þjóðirnar sem eru með Íslandi og Austurríki í riðli.

Dominika Grabowska kom Póllandi gríðarlega óvænt yfir á 12. mínútu leiksins og var staðan 1-0 Pólverjum í vil þegar gengið var til búningsherbergja í hálfleik. Það lifnaði yfir gestunum eftir þrefalda skiptingu í hálfleik og Lea Schüller jafnaði metin eftir undirbúning Alexöndru Popp þegar aðeins sex mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.

Schüller var aftur á ferðinni á 69. mínútu eftir undirbúning Giulia Gwinn en hún var meðal þeirra sem kom inn í hálfleik. Klara Bühl gekk svo frá leiknum þegar hún skoraði þriðja mark Þýskalands á 77. mínútu, lokatölur 1-3. Eftir fjóra leiki er Þýskaland með 12 stig á meðan Pólland er án stiga.

Klukkan 19.30 mætast Ísland og Austurríki á Laugardalsvelli. Báðar þjóðir eru með fjögur stig og því má segja að um hálfgerðan úrslitaleik sé að ræða en efstu tvö liðin fara beint á á EM. Leikurinn verður í beinni textalýsingu hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×