Enski boltinn

Segir enska knatt­spyrnu­sam­bandið vilja dæma Paquet­á í lífs­tíðar­bann

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Í leik með West Ham á nýafstaðinni leiktíð.
Í leik með West Ham á nýafstaðinni leiktíð. Vísir/Getty Images

Brasilíski miðjumaðurinn Lucas Paquetá, leikmaður West Ham United í ensku úrvalsdeildinni, er enn á ný í vandræðum vegna fjölda veðmála tengdum spilamennsku hann. Blaðamaður enska götublaðsins The Sun telur að enska knattspyrnusambandið vilji dæma leikmanninn í lífstíðarbann.

Hinn 26 ára gamli Paquetá hefur spilað einkar vel fyrir Hamrana síðan hann gekk í raðir félagsins árið 2022. Svo vel raunar að Englandsmeistarar Manchester City íhuguðu að kaupa leikmanninn síðasta sumar. 

Það var þá sem enska knattspyrnusambandið fór að skoða fjölda undarlegra veðmála tengdum Paquetá. Á endanum ákvað Man City ekki að kaupa leikmanninn og hann var áfram í herbúðum West Ham. 

Fyrr á þessu ári ákvað enska knattspyrnusambandið að ákæra leikmanninn fyrir brot á veðmálareglum deildarinnar. Í ákærunni er því haldið fram að Brasilíumaðurinn hafi „með beinum hætti reynt að hafa áhrif á framvindu og niðurstöðu eftirfarandi leikja með því að viljandi sækjast eftir spjaldi í þeim tilgangi að hafa áhrif á veðmálamarkaði.“ 

Leikirnir sem um ræðir eru:

  1. West Ham á móti Leicester City, 12. nóvember 2022
  2. Á móti Aston Villa, 12. mars 2023
  3. Á móti Leeds United, 21. maí 2023
  4. Á móti AFC Bournemouth, 12. ágúst 2023

Þá er Paquetá sömuleiðis ákærður í tveimur liðum fyrir brot á reglum F2 og F3. Þær snúa að því hversu ósamvinnufús hann hefur verið við rannsókn málsins. 

Nú greinir Matt Hughes hjá The Sun frá því að enska knattspyrnusambandið sé að íhuga að dæma leikmanninn i lífstíðar bann.

Í frétt miðilsins segir að alls hafi 60 einstaklingar veðjað á að Paquetá myndi fá spjald í einum eða öllum af leikjunum sem nefndir voru hér að ofan. Græddu einstaklingarnir 60 um 100 þúsund pund eða tæplega 18 milljónir íslenskra króna.

Leikmaðurinn heldur fram sakleysi sínu og segist hafa aðstoðað enska knattspyrnusambandið eins og hann getur undanfarna níu mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×