Erlent

Milljarða sekt fyrir illa með­ferð á hundum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Efnt var til stórátaks til að finna heimili fyrir hundana.
Efnt var til stórátaks til að finna heimili fyrir hundana. Getty/Orange County Register/Mark Rightmire

Fyrirtækið Envigo RMS LLC hefur verið sektað um 35 milljónir dala, jafnvirði 4,8 milljarða króna, eftir að 4.000 Beagle-hundum var bjargað á ræktunarstöð í Virginíu árið 2022.

Um er að ræða hæstu sekt sem lögð hefur verið á fyrirtæki eða einstakling í Bandaríkjunum á grundvelli laga um dýravelferð.

Envigo ræktaði hunda til notkunar í rannsóknum en rannsóknir yfirvalda leiddu í ljós að aðstæðum við ræktunina var stórkostlega ábótavant. Hundar voru aflífaðir ef þeir reyndust glíma við heilsufarsvandamál, jafnvel þótt þau væru auðlæknanleg. 

Þá var þeim gefið maðkað fóður, sem var bæði mengað myglu og saur. Sumir fengu ekkert að éta.

Yfirvöld sögðu ljóst að fyrirtækið hefði lagt áherslu á gróða umfram velferð dýranna. Forsvarsmenn Envigo viðurkenndu sök og þá viðurkenndu stjórnendur systurfyrirtækisins Envigo Global Services Inc. að meðhöndlun affallsvatns hefði verið ábótavant og ógnað heilsu og velferð hundanna.

Móðurfélag fyrirtækjanna, Inotiv, hefur samþykkt að greiða sektina og rækta ekki hunda í fimm ár.

Málið vakti mikla athygli í Bandaríkjunum á sínum tíma en efnt var til stórátaks til að finna hundunum heimili. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×