Enski boltinn

Styttist í að Ten Hag fái að vita hvað fram­tíðin ber í skauti sér

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ten Hag hefur bætt tveimur bikurum í safnið hjá Man United síðan hann tók við.
Ten Hag hefur bætt tveimur bikurum í safnið hjá Man United síðan hann tók við. AP Photo/Kin Cheung

Þrátt fyrir að vinna tvo titla á sínum fyrstu tveimur árum sem þjálfari enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester United þá er framtíð Erik ten Hag í lausu lofti. Hann vonast til að fá hana á hreint á næstu dögum.

Man United átti erfitt uppdráttar á nýafstaðinni leiktíð. Meiðslalistinn var langur, sumir leikmenn virtust annars hugar á meðan aðrir virðast einfaldlega ekki nægilega góðir. Að því sögðu þá tókst Man Utd að enda tímabilið á góðu nótunum þegar það lagði Englandsmeistara Man City 2-1 í úrslitum ensku bikarkeppninnar.

Var þetta annað árið í röð sem liðin mættust í úrslitum bikarkeppninnar en á síðasta ári var það Man City sem hafði betur.

Sigurinn í ár var annar titill félagsins undir stjórn Ten Hag á jafn mörgum árum en liðið lagði Newcastle United í úrslitum enska deildarbikarsins á síðasta ári. Slakt gengi í deild sem og Evrópu á nýafstaðinni leiktíð gerði það hins vegar að verkum að forráðamenn Man Utd eru ekki vissir um að hinn 54 ára gamli Ten Hag sé rétti maðurinn til að stýra skútunni úr höfn næsta haust.

Samkvæmt Sky Sports hefur félagið undanfarna daga verið að fara yfir nýafstaðna leiktíð og að því loknu verður staðfest hvort hollenski þjálfarinn verði áfram við stjórnvölin eður ei.

Samningur Ten Hag rennur út sumarið 2025. Fari svo að hann verði látinn fara þyrfti Man Utd því að borga honum þangað til.


Tengdar fréttir

Fergu­son hafi átt leyni­legan fund í Lundúnum

Sir Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóri og goðsögn í sögu enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester United, er sagður hafa fundað með Dougie Freedman, yfirmanni knattspyrnumála hjá Crystal Palace, varðandi þrjá leikmenn félagsins sem Manchester United er sagt á höttunum eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×