Skoðun

Gegnum­­lýsing - þanka­brot fram­bjóðanda að loknu for­­seta­­kjöri

Arnar Þór Jónsson skrifar

Um leið og ég þakka öllum þeim sem sýndu mér stuðning í orði og verki, vil ég óska Höllu Tómasdóttur til hamingju með kjör hennar í embætti forseta Íslands.

Í dag hef ég hvílst og fengið fjölmörg símtöl og hvatningarorð sem ég tek með mér inn í framtíðina, hver svo sem sú framtíð verður. Ég treysti því að verða leiddur til þess staðar sem mér er ætlaður.

Líkja má reynslu síðustu mánaða við einhvers konar gegnumlýsingu, þar sem maður sér samfélag sitt og samferðamennina í nýju ljósi, hvað er heilt og hvað ekki. Í sama ljósi sér maður hvað er heilt í innra lífi manns sjálfs og hvað þarf að styrkja.

Þegar stjórnkerfið og framgangur kosninganna er skoðað í þessu skæra ljósi birtast mögulegar hliðstæður úr eftirfarandi sögu:

Til að afstýra uppreisn meðal þrælanna ákveður þrælahaldarinn að boða til kosninga, þar sem þrælarnir fá að kjósa milli frambjóðenda sem hann hefur sjálfur valið. Frambjóðandi A lofar styttri vinnudegi, frambjóðandi B lofar skárri hádegismat. Með þessu er uppreisninni afstýrt og þrælarnir halda áfram að vinna, því þeir ímynda sér að þeir hafi stjórn á aðstæðum sínum. Einn þrællinn, Samúel, neitar að sætta sig við aðstæður. Hann stendur upp og varar aðra við því að kjósa A eða B, því þeir geri ekki annað en að sjá til þess að fólkið sé áfram í ánauð, því hvorugur frambjóðandinn hafi neitt fram að færa sem muni leysa þau úr fjötrum. En máttur blekkingarinnar er svo sterkur að þrælarnir, sem ímynda sér að þau hafi raunverulegt val, stimpla Samúel sem hættulegan mann og hann er húðstrýktur til bana fyrir að vilja skaða lýðræðið.

Þegar horft er á hið pólitíska landslag hérlendis, þ.m.t. stjórnmálaflokka, fjölmiðla og álitsgjafa, er niðurstaðan þá sú að við búum við heilbrigt lýðræði? Breytir miklu í reynd hvort við kjósum flokka / frambjóðendur til hægri eða vinstri? Eða vex sérfræðingaveldið / báknið / tækniræðið stöðugt, án tillits til niðurstaðna kosninga? Hver er útgönguleiðin? Ný hugmyndafræði? Stofnun nýs stjórnmálaflokks?

E.S. Dæmisagan hér að ofan er sett fram hér í 12 mínútna stuttmynd, sem vel er þess virði að sjá: The Jones Plantation (youtube.com)




Skoðun

Skoðun

1969

Tómas A. Tómasson skrifar

Sjá meira


×