Fótbolti

Elías Már og fé­lagar upp í efstu deild eftir ó­trú­lega dramatík

Smári Jökull Jónsson skrifar
Elías Már Ómarsson og NAC Breda tryggðu sæti sitt í efstu deild Hollands á næsta tímabili.
Elías Már Ómarsson og NAC Breda tryggðu sæti sitt í efstu deild Hollands á næsta tímabili. Vísir/Getty

Elías Már Ómarsson og liðsfélagar hans í NAC Breda tryggðu sér í dag sæti í hollensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þrátt fyrir 4-1 tap gegn Excelsior í seinni umspilsleik liðanna um sæti í efstu deild.

Saga NAC Breda í umspilinu er hálf ótrúleg. Liðið hafnaði í 8. sæti næst efstu deildar og rétt tryggði sér þar með sæti í umspilinu á markatölu. Þar byrjaði liðið á að leggja bæði Roda JC og FC Emmen að velli en þau enduðu ofar en NAC Breda í töflunni.

Þessir sigrar þýddu að liðið var komið í úrslitaeinvígi gegn Excelsior sem hafnaði í þriðja neðsta sæti efstu deildar en Elías Már lék með Excelsior á árunum 2018-2021 og skoraði 41 mark í 88 leikjum fyrir félagið. 

Í fyrri leik liðanna á þriðjudaginn skoraði Elías Már tvö mörk þegar NAC Breda vann 6-2 stórsigur á sínum heimavelli og virtist vera komið með annan fótinn upp í efstu deild.

Svo var aldeilis ekki. Excelsior komst í 3-0 í fyrri hálfleik í leik dagsins og náði síðan 4-0 forystu á 50. mínútu leiksins. Leikar þar með hnífjafnir.

Casper Staring skoraði hins vegar fyrir NAC Breda á 59. mínútu og minnkaði muninn í 4-1. NAC Breda var komið með 7-6 forystu samtals og spennan gífurleg. Heimamenn í Excelsior pressuðu gríðarlega undir lok leiksins og Elías Már og félagar í nauðvörn síðustu mínúturnar.

Heimaliðinu tókst þó ekki að skora og leikmenn NAC Breda fögnuðu gríðarlega í leikslok ásamt stuðningsmönnum sínum. Elías Már hefur leikið með NAC Breda síðan í janúar á síðasta ári en hann skoraði þrjú mörk fyrir liðið í deildakeppninni eftir að hafa misst af upphafi mótsins vegna meiðsla.

NAC Breda leikur þar með í Eredivise á næstu leiktíð og verður forvitnilegt að sjá Elías Má í deild þeirra bestu í Hollandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×