Fótbolti

„Besta kvöld lífs míns“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Jude Bellingham fagnar ásamt liðsfélögum sínum í leikslok.
Jude Bellingham fagnar ásamt liðsfélögum sínum í leikslok. Vísir/Getty

Jude Bellingham varð í kvöld Evrópumeistari með Real Madrid eftir sigur á fyrrum liðsfélögum sínum í Borussia Dortmund. Hann sagði kvöldið vera besta kvöld lífs síns.

„Mig hefur alltaf dreymt um að spila í þessum leikjum. Maður fer í gegnum lífið þar sem fólk er að segja þér að þú getir ekki gert ákveðna hluti. Dagar eins og þessir minna þig á það,“ sagði Bellingham í viðtali við TNT Sports strax eftir leik.

Real Madrid var í vandræðum í fyrri hálfleik þar sem Dortmund fór illa með mörg góð færi. Reynslan í liði Real Madrid vóg þungt þegar á hólminn var komið. Bellingham var í miklu uppnámi eftir leikinn.

„Þetta er oft erfitt og maður veltir því fyrir sér hvort þetta sé allt þess virði. Á svona kvöldi þá áttar maður sig á því. Ég var alveg góður þangað til ég sá mömmu mína og pabba.“

„Og svo litli bróðir minn sem ég er að reyna að vera góð fyrirmynd fyrir. Ég er hálf orðlaus. Þetta er besta kvöld lífs míns.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×