Innlent

Maðurinn sem féll í Fnjósk­á fannst látinn

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Maðurinn féll í Fnjóská á sjöunda tímanum í gærkvöldi.
Maðurinn féll í Fnjóská á sjöunda tímanum í gærkvöldi.

Tvítugur karlmaður sem féll í Fnjóská á sjöunda tímanum í gærkvöldi fannst látinn. Leit hefur staðið yfir að honum síðan klukkan 18:30 í gærkvöldi og lauk nú á tólfta tímanum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra á Facebook. Þar segir að rannsókn málsins sé í höndum lögreglu og leitarhópar hafi verið afturkallaðir. Maðurinn fannst í ánni norðvestan við Ártún í Grýtubakkahreppi samkvæmt tilkynningu.

Um tvö hundruð hafa tekið þátt í leitinni, bæði björgunarsveitir af Norðurlandi og höfuðborgarsvæðinu, sem bættust við í morgun. Aðstæður til leitar hafa verið erfiðar þar sem leysingar eru og áin hefur verið vatnsmikil, köld og mjög gruggug.

Tilkynning barst viðbragðsaðilum í gærkvöldi eftir að maðurinn féll í Fnjóská úr gili fyrir ofan ósa hennar vestast í Dalsmynni, skammt frá Pálsgerði. Hann var með þremur félögum sínum þegar hann féll og hvarf hann þeim sjónum í ánni. 


Tengdar fréttir

Leitin ekki borið árangur í nótt

Leit að karlmanni um tvítugt sem féll í Fnjóská hefur enn ekki borið árangur. Leitað hefur verið að manninum síðan um klukkan 18.30 í gær. Fram kemur í tilkynningu frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra að viðbragðsaðilar hafi verið við leit að manninum í nótt og að leitin hafi ekki borið árangur. Þegar maðurinn hvarf ofan í ánna var hann með þremur félögum sínum.

Leita enn mannsins sem er um tvítugt

Viðbragðsaðilar leita enn mannsins sem féll í Fnjóská í kvöld. Maðurinn, sem er karl um tvítugt, var þar með þremur félögum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×