Sport

„Sigur yrði stórt skref í áttina að betri hlutum“

Aron Guðmundsson skrifar
Kolbeinn Kristinsson, atvinnumaður í hnefaleikum, er klár í átök. Hann mætir Finnanum Mika MIelonen í átta lotu bardaga annað kvöld
Kolbeinn Kristinsson, atvinnumaður í hnefaleikum, er klár í átök. Hann mætir Finnanum Mika MIelonen í átta lotu bardaga annað kvöld Vísir/Sigurjón Ólason

Kol­beinn Kristins­son, þunga­vigtar­kappi og at­vinnu­maður okkar í hnefa­leikum, á fyrir höndum mikil­vægan bar­daga á sínum tap­lausa at­vinnu­manna­ferli til þessa annað kvöld. Eftir fá­dæma ó­heppni og niður­fellda bar­daga vegna meiðsla er Kol­beinn klár í slaginn á ný. Sigur annað kvöld hefur þá burði að koma at­vinnu­manna­ferli hans á næsta stig.

„Öll vinnan er búin. Heyið er komið í hlöðuna. Núna þarf maður bara að komast heill í bar­dagann,“ segir Kol­beinn sem mætir Finnanum Mika Mielonen í ná­grenni Helsinki annað kvöld.

„Það verður frá­bært að fá loksins að berjast. Loksins að fá að ganga inn í hringinn. Fá að gera það sem að maður hefur undir­búið sig svo lengi fyrir. Ég er í rauninni búinn að vera æfa í hálft ár fyrir einn bar­daga. Þetta verður frá­bært.“

Kol­beinn hefur nefni­legast verið ó­venju ó­heppinn upp á síð­kastið. Hann átti að berjast í byrjun desember á síðasta ári en tíu dögum fyrir þann bar­daga braut hann bein í baug­fingri. Hann var síðan kominn með annan bar­daga í upp­hafi mars á þessu ári en viti menn þá braut hann bein í öðrum fingri.

Hann er búinn að jafna sig af þeim meiðslum og nú er að­eins rétt rúmur sólar­hringur í bar­daga hans um Baltic Boxing Union beltið í þunga­vigtar­flokki gegn Finnanum Mika Mielonen.

„Ég er búinn að kynna mér hann að­eins. Mika slær fast og er harður af sér. Stór og þykkur. Hann er þó ekki að vinna hlutina á sama hraða og ég. Slær ekki eins mikið frá sér. Við nýtum okkur það bara gegn honum.

Ég sá bar­dagann fyrir mér þannig að ég nái að keyra hraðann vel upp. Held bar­daganum á því tempói sem að Mika ræður erfið­lega við. Slæ meira en hann ræður við að boxa á. Hann á endanum sprengir sig og þá klára ég hann.“

Undir­búningurinn hefur gengið vel.

Vísir/Sigurjón Ólason

„Ég hef verið að passa það að ég sé heill heilsu. Verið að fín­stilla allar æfingar hjá mér eftir því sem að líður nær bar­daganum. Satt best að segja líður mér bara mjög vel. Auð­vitað, í ljósi þess hvernig farið hefur hjá mér fyrir síðustu tvo skipu­lögðu bar­daga hjá mér, hef ég verið að passa mig að­eins meira en vana­lega. 

Það fyrsta sem ég sagði eftir hvert sparr var „ég braut mig ekki“ núna er maður kominn inn fyrir þröskuldinn. Engin erfið vinna eftir í undir­búningnum. Núna er það bara bar­daginn.“

Sigur hefur mikið að segja

Sigur í bar­daganum, hvað þá öruggur sigur, getur haft mikið að segja um fram­haldið á at­vinnu­manna­ferli Kol­beins sem er enn ó­sigraður.

Kolbeinn Kristinsson hefur unnið alla bardaga sína sem atvinnumaður.Beggi Dan

„Sigur yrði stórt skref í áttina að betri hlutum. Með sigri yrði ég búinn að koma mínu nafni á meðal efstu átta­tíu hnefa­leika­kappa á heims­lista þunga­vigtarinnar. Ég reikna það þá þannig að vera tveimur til þremur sigrum frá stærstu bar­dögunum í heimi. Það er tak­markið. Það sem að ég vil og hef verið að stefna að í gegnum minn feril. Að gera at­lögu að heims­meistara­titli. Það er það sem að ég vil.“

Hvernig sérðu bar­dagann fara?

„Ef að ég geri allt rétt þá klárast þessi bar­dagi áður en að loturnar átta renna sitt skeið.“

Hægt verður að nálgast streymi af bardagakvöldinu hér. Áætlað er að Kolbeinn og Mika berjist klukkan 17:40 að íslenskum tíma. 

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×