Körfubolti

Vals­menn fyrstu kana­lausu Ís­lands­meistararnir í 24 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristinn Pálsson kyssir Íslandsbikarinn en Írinn Taiwo Badmus fylgist með.
Kristinn Pálsson kyssir Íslandsbikarinn en Írinn Taiwo Badmus fylgist með. Vísir/Anton Brink

Ef það hefur verið hægt að ganga að einu vísu þá er það að bestu liðin í Subway deild karla eru með öflugan bandarískan leikmann í sínu liði. Ekki í ár.

Það er þó þannig að nýkrýndir Íslandsmeistarar Vals misstu sinn bandaríska leikmann í krossbandsslit í febrúar. Þeir unnu því Íslandsmeistaratitilinn án þess að vera með bandarískan leikmann í liði sínu í öllum leikjum úrslitakeppninnar.

Það þarf að fara mjög langt aftur til að finna síðustu kanalausu Íslandsmeistarana.

Í raun þarf að fara langt inn á síðustu öld og nánar til getið 34 ár aftur í tímann til að finna síðustu Íslandsmeistarana sem tryggðu sér titilinn án þess að njóta aðstoðar frá leikmanni frá Norður-Ameríku.

Það lið var KR liðið sem varð Íslandsmeistari voruð 1990 eftir að hafa unnið alla fimm leiki sína í úrslitakeppninni. KR-ingar voru vissulega með mjög öflugan leikmann í sínu liði en það var Sovétmaðurinn Anatolij Kovtun.

Kovtun var þarna 29 ára gamall og búinn að vera tvisvar sinnum sovéskur meistari með bæði CSKA Mosck og Stroitel Kiev. Kovtun var með 16,9 stig, 11,0 fráköst og 2,81 stolinn bolta að meðaltali í leik í deildarkeppninni.

Hann spilaði þó bara í eitt tímabil með KR því hann slasaðist illa í bílslysi um sumarið og varð að hætta í körfubolta.

Rondey Robinson hjálpaði Njarðvík að vinna Íslandsmeistaratitilinn árið eftir og síðan hafa öll meistaralið verið með bandarískan leikmann þar til núna.

KR-ingar komust reyndar nær þessu en aðrir vorið 2000. Keith Christophe Vassell var auðvitað frá Kanada en ekki frá Bandaríkjunum en það gilda sömu reglur um Bandaríkjamenn og Kanadamenn þegar kemur að erlendum leikmönnum. Báðir taka til sín þetta eina sæti sem íslensku liðin mega fylla með leikmönnum frá Norður-Ameríku. 

Vassell er hins vegar ekki Bandaríkjamaður og því eru 24 ár síðan að lið vann Íslandsmeistaratitil án Bandaríkjamanns.

Valsmenn eru með þrjá erlenda leikmenn en allir eru þeir en evrópsk vegabréf. Taiwo Badmus er með írskt vegabréf, Antonio Monteiro er með portúgalskt og Justas Tamulis er frá Litháen.

Valsmenn ætluðu auðvitað að vera með Bandaríkjamenn og margir höfðu áhyggjur af liðinu eftir að Joshua Jefferson meiddist. Meiðslin urðu eftir að félagskiptaglugganum lokaði og því gátu þeir ekki náð í annan Bandaríkjamann í staðinn.

Valsliðinu tókst hins vegar að landa titlinum án hans og verða fyrstu Íslandsmeistararnir í meira en þrjá áratugi til að vinna án leikmanns frá Bandarikjunum eða Kanada.

Íslandsmeistaratitilinn hefur aðeins unnist átta sinnum án leikmanns frá Norður-Ameríku í úrslitakeppni. Fyrst sex sinnum í röð frá 1984 til 1989 þegar Bandaríkjamenn voru bannaðir, þá árið1990 og svo nú árið 2024.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×