Körfubolti

Ofurdúóið sá til þess að Dallas spilar til úr­slita um NBA titilinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Dallas Mavericks fagna því að Luka Doncic var valinn besti leikmaður úrslitaeinvígis Vesturdeildarinnar og fékk að launum Magic Johnson bikarinn.
Leikmenn Dallas Mavericks fagna því að Luka Doncic var valinn besti leikmaður úrslitaeinvígis Vesturdeildarinnar og fékk að launum Magic Johnson bikarinn. AP/Abbie Parr

Dallas Mavericks tryggði sér í nótt sæti í úrslitaeinvíginu um NBA meistaratitilinn í körfubolta eftir stórsigur á Minnesota Timberwolves.

Dallas vann leikinn 124-103 og þar með einvígið 4-1. Liðið mætir Boston Celtics í úrslitaeinvíginu.

Luka Doncic og Kyrie Irving voru Úlfunum erfiðir í þessu einvígi og það var engin breyting á því í þessum fimmta leik.

Báðir skoraði þeir 36 stig í leiknum en þetta ofurbakverðadúó sprengdi upp Timberwolves vörnina allt einvígið. Vörnina sem hafði gert fráfarandi meisturum Denver Nuggets svo erfitt fyrir í síðustu undanúrslitum Vesturdeildarinnar.

Doncic gaf tóninn í upphafi með því að skora tólf stig á fyrstu 153 sekúndum leiksins. Hann skoraði 21 stig í fyrsta leikhlutanum eða meira en allir leikmenn Timberwolves til samans. Doncic var valinn besti leikmaður einvígsins og fékk að launum Magic Johnson bikarinn.

Kyrie tók síðan yfir í öðrum leikhluta þar sem hann skoraði 15 af 36 stigum sínum. Með þá báða í ham þá var ekkert skrýtið að Dallas var búið að stinga af.

Saman voru þeir með 44 stig í fyrri hálfleiknum en allt lið Timberwolves skoraði 40 stig. Luka og Kyrie áttu alls þátt í 57 af 69 stigum Mavericks í hálfleiknum með því annað hvort að skora eða gefa stoðsendinguna.

Félagarnir Anthony Edwards og Karl-Anthony Towns skoruðu báðir 28 stig fyrir Minnesota. Liðið vakti mikla athygli fyrir frábæra frammistöðu á móti Phoenix Suns og Denver en þeir áttu engin svör við einu bestu bakvarðarsveit sem hefur spilað saman í deildinni.

Þetta er í þriðja skiptið sem Dallas spilar til úrslita um titilinn en í fyrsta skiptið síðan liðið vann titilinn árið 2011. Þá var Jason Kidd leikstjórnandi liðsins en nú er hann þjálfarinn.

Úrslitaeinvígi Boston og Dallas hefst ekki fyrr en eftir tæpa viku eða 6. júní og það byrjar á heimavelli Boston.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×