Viðskipti erlent

Nýjum al­þjóða­flug­velli á Græn­landi seinkar enn

Kristján Már Unnarsson skrifar
Frá framkvæmdum við flugvöllinn í Ilulissat. Núverandi flugbraut sést fjær en sú nýja til hægri.
Frá framkvæmdum við flugvöllinn í Ilulissat. Núverandi flugbraut sést fjær en sú nýja til hægri. Mittarfeqarfiit/Greenland Airports

Flugvallayfirvöld á Grænlandi hafa tilkynnt um seinkun á opnun nýs alþjóðaflugvallar við bæinn Ilulissat við Diskó-flóa. Ný tímaáætlun gerir ráð fyrir að hægt verði að taka völlinn í notkun á fjórða ársfjórðungi 2026, eftir tvö og hálft ár.

Vonast hafði verið til að ný 2.200 metra flugbraut í Ilulissat yrði tilbúin á næsta ári, árið 2025. Skýringarnar sem flugvallafyrirtækið og verktakinn, Munck Group, gefa á seinkuninni eru nokkrar, þar á meðal skortur á vinnuafli, tækjaskortur og varahlutaskortur. Jafnframt segir að fjöldi verkefna hafi reynst umfangsmeiri en áætlað var.

Teikning af nýja flugvellinum í Ilulissat.Grafík/Kalallit Airports.

Upphaflega áttu nýir flugvellir í Ilulissat, Nuuk og Qaqortoq að fylgjast að og klárast allir á árinu 2023, það er í fyrra. Öllum verkunum hefur hins vegar ítrekað seinkað.

Tilkynnt var fyrir síðustu áramót að opnunardagur 2.200 metra brautar í Nuuk verði þann 28. nóvember 2024, sem er eftir sex mánuði. Þá er núna gert ráð fyrir að nýr 1.500 metra flugvöllur í Qaqortoq verði tilbúinn árið 2026.

Fyrirhuguð flugstöð í Ilulissat.Kalaallit Airports/Greenland Airports

Þessar nýju dagsetningar snerta áætlanagerð Icelandair, sem heldur úti reglubundnu flugi á helstu staði Grænlands. Þar sem núverandi flugbrautir í Nuuk og Ilulissat eru mjög stuttar, 950 og 850 metra langar, hefur félagið eingöngu getað nýtt hinar 37 sæta Dash 8 Q200-vélar í flugi þangað. Nýju flugbrautirnar gefa félaginu færi á að nýta 76 sæta Q400-vélarnar og raunar einnig allar þotutegundirnar sem félagið rekur.

Núverandi flugbraut í Ilulissat er aðeins 845 metra löng. Myndin er skjáskot úr þætti Stöðvar 2 frá árinu 2012 um Íslendinganýlenduna sem þar var. Það er tekið úr flugstjórnarklefa Dash 8 Q200-vélar Icelandair.Stöð 2/Egill Aðalsteinsson

Með opnun flugvallar í Qaqortoq, stærsta bæ Suður-Grænlands, er gert ráð fyrir að vellinum í Narsarsuaq verði lokað en brautin þar er 1.830 metra löng. Viðbúið er að Icelandair muni þá færa Narsarsuaq-flug sitt yfir til Qaqortoq-flugvallar, sem einnig kemur til með að þjóna bænum Narsaq.

Myndband sýnir hvernig nýi flugvöllurinn í Ilulissat mun líta út:

Bærinn Ilulissat er sá þriðji stærsti á Grænlandi, með um 4.700 íbúa. Hann er talsvert norðan heimskautsbaugs, liggur á 69 breiddargráðu.

Þar var stór Íslendinganýlenda um nokkurra ára skeið fyrir rúmum áratug þegar Ístak og íslenskir undirverktakar þess byggðu 22,5 megavatta vatnsaflsvirkjun á afskekktum slóðum um sextíu kílómetra norðan Ilulissat. Um 170 manns unnu að verkinu þegar mest var á árunum 2010 til 2013 þegar lægð var í íslenska byggingageiranum.

Þetta var stærsta og flóknasta verkefni sem Ístak hafði ráðist í en virkjunin var sú fyrsta í heiminum sem byggð var neðanjarðar í sífrera. Vinnustaðurinn var í óbyggðum í sannkallaðri klakahöll og allir aðdrættir óvenju krefjandi. Þangað þurfti að sigla um hafís og aðeins fært yfir sumarið.

Þrátt fyrir sérlega krefjandi aðstæður tókst íslensku verktökunum að skila virkjuninni tilbúinni á tilsettum tíma síðsumars 2013, sem fjallað var um hér:

Stöð 2 heimsótti vinnustaðinn sumarið 2012 og gerði tvo sextán mínútna langa þætti um Íslendinganýlenduna afskekktu. Þættina má sjá hér:


Tengdar fréttir

Styttist í að Nuuk fái nýjan alþjóðaflugvöll

Flugvallafélag Grænlands, Kalaallit Airports, hefur formlega gefið út opnunardag nýs alþjóðaflugvallar í Nuuk, höfuðstað Grænlands. Stóri dagurinn verður eftir átta mánuði, 28. nóvember 2024. Þetta er fimm árum eftir að flugvallargerðin hófst og meira en árs seinkun frá upphaflegri áætlun.

Íslendingar í klakahöll undir Grænlandsjökli

Virkjun sem Ístak er að smíða á Grænlandi við Diskóflóa lengst norðan heimskautsbaugs er stærsta verkefni í fjörutíu ára sögu fyrirtækisins. Þar er sennilega sú Íslendinganýlenda sem fjærst er öðrum byggðum bólum í sannkallaðri klakahöll við bæinn Ilulissat. Fyrri reynsla Ístaksmanna af smíði virkjana á Grænlandi réð miklu þegar Orkustofnun Grænlands fól þeim einnig þetta tólf milljarða króna verk, þótt þeir ættu ekki lægsta boð.

Virkjunin gæti breyst í ísklump

Virkjanagöng, sem Ístaksmenn bora á Grænlandi langt norðan heimskautsbaugs, liggja í svo köldu bergi að það virkar eins og frystikista. Það er því raunveruleg hætta á því að virkjunin geti frosið og orðið að ísklumpi. Þetta kemur fram í þættinum Ísland í dag á Stöð 2 laust fyrir klukkan sjö í kvöld en þar verður fjallað um þær miklu áskoranir sem mæta íslenskum verktökum og verkfræðistofum við hönnun og smíði virkjunar skammt frá bænum Ilulissat við Diskóflóa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×