Innlent

Heildar­mat fast­­eigna hækkar um 4,3 prósent árið 2025

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Tálknafjörður. Fasteignaverð hækkar mest í Flóahreppi, Tálknafjarðarhreppi og Skeiða- og Gnúpverjahreppi.
Tálknafjörður. Fasteignaverð hækkar mest í Flóahreppi, Tálknafjarðarhreppi og Skeiða- og Gnúpverjahreppi. vísir/vilhelm

Heildarmat fasteigna árið 2025 hækkar um 4,3 prósent frá fyrra ári og verður 15,3 billjónir króna. Fasteignamat íbúða hækkar um 2,1 prósent á höfuðborgarsvæðinu og um 6,6 prósent á landsbyggðinni.

Þetta kemur fram í tilkynningu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Matið hækkar mest í Flóahreppi, eða um 20,6 prósent, og þá nemur hækkunin í Tálknafjarðarhreppi 20 prósentum og í Skeiða- og Gnúpverjahreppi 19,8 prósentum.

Fasteignamatið í Kjósahreppi lækkar hins vegar um 1,5 prósent.

„Fasteignamat atvinnuhúsnæðis hækkar um 6,0% á landinu öllu, en hækkunin nemur 5,4% á höfuðborgarsvæðinu og 7,4% á landsbyggðinni. Fasteignamat sumarhúsa hækkar svo um 15,6% á landinu öllu,“ segir í tilkynningunni.

Þegar horft er til tegunda húsnæðis hækka einbýli  mest, eða um 4,7 prósent. Fasteignamat á fjölbýlum hækkar um 2,5 prósent milli ára. Af atvinnuhúsnæði hækka geymslur um 7 prósent og iðnaðarhúsnæði um 6,7 prósent.

Fletta má upp nýju fasteignamati fyrir einstaka fasteignir á vefnum leit.fasteignskra.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×