Körfubolti

„Sögðust ætla að klára þetta fyrir mig“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Kristófer með Íslandsbikarinn.
Kristófer með Íslandsbikarinn. Vísir/Anton Brink

Kristófer Acox var meyr eftir að Valsmenn tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta í kvöld. Kristófer meiddist í upphafi leiks en tók þátt í fagnaðarlátum Valsmanna.

„Hjartað mitt er fullt, það er mikil gleði og ég veit það ekki. Það er rosalega mikið í gangi akkúrat núna,“ sagði Kristófer í viðtali við Andra Má Eggertsson eftir leikinn í kvöld. 

Kristófer sat á bekknum með fótinn uppi á stól á meðan félagar hans fögnuðu úti á gólfi. Hann fór meiddur af velli strax í upphafi leiks og kom ekkert meira við sögu eftir það.

„Það er skrýtið að taka á móti þessu í þessu ástandi. Eftir smá tíma þegar þetta kemur inn þá set ég þennan í fyrsta sæti,“ sagði hann aðspurður um hvar hann raðaði þessum titli á meðal þeirra Íslandsmeistaratitla sem hann hefur unnið.

Hann sagði að honum hefði ekkert liðið illa að fylgjast með liðsfélögum sínum af hliðarlínunni.

„Síðan ég fór útaf voru þeir í bílstjórasætinu og stjórnuðu leiknum vel. Við héldum forystunni allan tímann eins og við töluðum um. Þeir sögðu við mig þegar ég fór útaf að þeir ætluðu að klára þetta fyrir mig og þeir gerðu það.“

Með sigrinum í kvöld sló Kristófer met en enginn hefur unnið jafn marga oddaleiki í úrslitaeinvígi eins og hann.

„Það er bara frábært, ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að taka þátt í öllum þessum leikjum. Auðvitað er leiðinlegt að hafa misst af öllum leiknum,“ sagði Kristófer en Andri þurfti að gera hlé á viðtalinu í nokkur skipti á meðan hamingjuóskum rigndi yfir Kristófer.

„Það er slitin sin halda þeir en vonandi ekki krossband eða neitt þannig. Þetta er bara aðgerð sem fyrst en ég verð frá í allt sumar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×