Innlent

Tvíburafolöld mætt í heiminn í Suðurnesjabæ

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Ugla með folöldin sín, sem hafa fengið nöfnin Hula og Háski og eru kennd við Hamraberg.
Ugla með folöldin sín, sem hafa fengið nöfnin Hula og Háski og eru kennd við Hamraberg. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Tvíburafolöld komu í heiminn á bænum Melabergi á Stafnesi í Suðurnesjabæ í gærkvöldi. Það kom jörp hryssa og brúnn hestur og hafa þau fengið nafnið Hula og Háski. Systkinin komu vel undan nóttinni og voru farin að hlaupa saman í morgun.

„Ég varð ansi hissa þegar ég kíkti á Uglu í gærkvöldi og sá tvö folöld liggja hjá henni, sérstaklega þar sem hún gekk fulla meðgöngu. Ég rétt missti af köstun en merin virtist hraust og í góðu standi eftir herlegheitin. Það tók smá tíma að koma folöldunum á lappir og þurftu þau smá aðstoð. Snorri Ólafsson og Gunnar Auðunsson voru mér innan handar og hefði ég ekki getað þetta án þeirra,” segir Elfa Hrund Sigurðardóttir, eigandi og ræktandi. Mjög sjaldgæft er að hryssur kasti tveimur folöldum.

Folöldunum komið á lappir í gærkvöldi. Það gekk vel hjá þeim Snorra og Gunnari.Aðsend

Ugla er undan Stála frá Kjarri en hún er 17 vetra og á 7 folöld fyrir. Faðir folaldanna er Hulinn frá Breiðstöðum, sem fór í glæsilegan dóm í fyrra sumar.

Folöldin fóru strax á spena hjá mömmu sinni.Aðsend

Ekki er mikið um að tvíburafolöld komi í heiminn á Íslandi og er það alltaf jafn gaman, sérstaklega þegar allt gengur vel og folöldin eru hraust og ekki síður móðir þeirra.Aðsend



Fleiri fréttir

Sjá meira


×