Viðskipti innlent

Sker úr um hvort veitinga­maður hafi mátt borga fyrir kókið

Árni Sæberg skrifar
Hæstiréttur tekur málið fyrir.
Hæstiréttur tekur málið fyrir. Vísir/Vilhelm

Hæstiréttur hefur samþykkt áfrýjunarleyfisbeiðni Coca-Cola Europacific Partners Ísland ehf., CCEP, í máli þrotabús veitingamannsins Einars Sturlu Möinichen á hendur félaginu. Landsréttur taldi Einar Sturlu ekki hafa mátt greiða CCEP 29 milljóna króna viðskiptaskuldi korter í gjaldþrot.

Í dómi Landsréttar segir að þrotabú Einars Sturlu hafi höfðað málið og krafist riftunar greiðslu að fjárhæð rúmlega 29 milljóna króna af bankareikningi hans þann 1. nóvember 2019, sem innt var af hendi til CCEP.

Borgaði feita skuld

Landsréttur hafi talið að Einar Sturla hefði verið ógjaldfær þegar greiðslan var innt af hendi. Nokkru áður hefði hann ráðstafað stórum hluta eigna sinna annað, verið tekjulítill og nýtt fjármuni frá fyrirtæki sínu, sem einnig var ógjaldfært, til að gera upp við CCEP á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar sinnar. Skuldin hafi verið tilkomin vegna skuldar fyrirtækisins við CCEP.

Ítarlega var fjallað um dóm Landsréttar í fréttinni hér að neðan:

Engin dómaframkvæmd um skyldu til að kanna gjaldfærni

Í ákvörðun Hæstaréttar segir að CCEP hafi byggt á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi en í því reyni á túlkun og beitingu greinar laga um gjaldþrotaskipt og fleira sem varðar heimild til riftunar á ráðstöfunum þrotamanns.

Þá væru engin dæmi í dómaframkvæmd um sérstaka athafnaskyldu móttakanda greiðslu til að kanna stöðu þrotamanns við álíka aðstæður. Þessu til viðbótar reyni á réttmæti þess að innheimta skuld fyrirtækis hjá aðila sem gengist hafi undir sjálfskuldarábyrgð á greiðslu hennar. 

Slíkar ábyrgðir tíðkist í viðskiptum og miklu skipti að skýrt sé hvaða skyldur hvíli á skuldareiganda við álíka aðstæður. CCEP hafi einnig vísað til þess að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni þess. Þá vísi félagið til þess að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng og að ekki hafi verið tekin fullnægjandi afstaða til málsástæðna í dómi Landsréttar.

Í ákvörðunarorði segir að að virtum gögnum málsins verði að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi um skýringu fyrrgreindar greinar laga um gjaldþrotaskipti og fleira.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×