Erlent

For­seti Perú kærður fyrir mútu­þægni

Kjartan Kjartansson skrifar
Dina Boluarte, forseti Perú, á í vök að verjast þessa dagana.
Dina Boluarte, forseti Perú, á í vök að verjast þessa dagana. AP/Eraldo Peres

Ríkissaksóknari í Perú lagði fram kæru til þingsins á hendur Dinu Boluarte, forseta landsins, fyrir mútuþægni í gær. Ásakanirnar tengjast lúxusúrum og skartgripum sem Boluarte ber.

Boluarte neitar sök í málinu. Hún hefur þegar verið yfirheyrð og sætt húsleit vegna rannsóknar lögreglu. Forsetinn heldur því fram að Rolex-úr og Cartier-skartgripur sem hún sést reglulega með séu lánsgripir frá sveitarstjóra, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Vinsældir Boluarte hafa aldrei mælst minni en nú. Þetta er í annað skiptið sem hún er kærð til þingsins á innan við tveimur árum við völd. Fyrr kvörtunin snerist um viðbrögð ríkisstjórnar hennar við mótmælaöldu sem skók landið eftir að þingið setti Pedro Castillo, forvera hennar, af árið 2022. Að minnsta kosti fjörutíu manns féllu í mótmælum og óeirðum vikurnar á eftir.

Gustavo Adranzen, forsætisráðherra, lýsti kæru saksóknara á hendur forsetanum sem ósmekklegri, ólöglegri og sagði hana stangast á við stjórnarskrá. Belourte léti ekki pólitískan skarkala trufla sig.

Kæran kemur til kasta þingsins sem getur ákveðið að halda atkvæðagreiðslu um að setja Boluarte af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×