Fótbolti

Ronaldo fyrsti markakóngurinn í fjórum löndum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo hefur raðað inn mörkum með Al Nassr en það má ekki gleyma því að hann er 39 ára gamall.
Cristiano Ronaldo hefur raðað inn mörkum með Al Nassr en það má ekki gleyma því að hann er 39 ára gamall. Getty/Yasser Bakhsh

Cristiano Ronaldo bætti markametið í sádi-arabísku deildinni í gær þegar hann skorað tvö mörk í 4-2 sigri Al Nassr á Al Ittihad.

Ronaldo skoraði 35 mörk og gaf 11 stoðsendingar í 31 deildarleik á þessu tímabili.

Hann bætti metið með laglegu skallamarki og fagnaði vel. Fyrra markið skoraði hann með laglegri afgreiðslu.

Hann sló þar með gamla markametið frá 2018-19 sem var í eigu Abderrazak Hamdallah sem skoraði þá 34 mörk. Hamdallah varð þriðji markahæstur í ár með 19 mörk en í öðru sæti var Aleksandar Mitrovic með 27 mörk eða átta mörkum færra en Ronaldo.

Með því að verða markakóngur í Sádi-Arabíu þá náði Ronaldo líka því að verða markakóngur í fjórum löndum.

Hann var markahæstur í ensku deildinni með Manchester United tímabilið 2007-08. Hann skoraði þá 31 mark í 34 leikjum.

Hann varð þrisvar sinnum markahæstur í spænsku deildinni með Real Madrid eða 2010–11, 2013–14 og 2014–15. Fyrsta tímabilið skoraði hann 40 mörk í 34 leikjum, þá 31 mark í 30 leikjum og loks 48 mörk í 35 leikjum.

Þá var hann einu sinni markahæstur í ítölsku deildinni með Juventus eða tímabilið 2020-21. Ronaldo skoraði þá 29 mörk í 33 leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×