Körfubolti

Lög­mál leiksins: Hörður valdi verstu liðin sem hafa komist í úr­slit NBA

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Donyell Marshall, Sasha Pavlovic, Anderson Varejao, LeBron James og félagar slysuðust í úrslit NBA 2007.
Donyell Marshall, Sasha Pavlovic, Anderson Varejao, LeBron James og félagar slysuðust í úrslit NBA 2007. getty/Gregory Shamus

Aðdáendur NBA koma aldrei að tómum kofanum hjá strákunum í Lögmáli leiksins. Í þætti kvöldsins verður fjallað um verstu lið sem hafa komist í úrslit NBA.

Hörður Unnsteinsson kom vopnaður lista yfir fimm verstu lið hafa komist í úrslit NBA í þátt kvöldsins. 

Í 5. sæti var Hörður með silfurliðið frá því í fyrra, Miami Heat. Í 4. sætinu var svo lið Cleveland Cavaliers sem tapaði 4-0 fyrir Golden State Warriors í úrslitunum 2018.

Í 3. sætinu voru svo Allen Iverson og félagar í Philadelphia 76ers 2001. Liðið tapaði 4-1 fyrir Shaquille O'Neal, Kobe Bryant og félögum þeirra í Los Angeles Lakers.

Hörður sló svo tveimur liðum saman í 2. sætið; New Jersey Nets sem komst í úrslit 2002 og 2003. Liðið tapaði fyrir Lakers fyrra árið og San Antonio Spurs seinna árið.

Klippa: Lögmál leiksins - Verstu lið sem hafa komist í úrslit

Í 1. sætinu, og þar að leiðandi versta lið sem hefur komist í úrslit NBA að mati Harðar, var Cleveland 2007. San Antonio rústaði því, 4-0, í úrslitunum.

„Liðið sem átti í raun og veru ekkert að fara í úrslit. Þetta átti að vera San Antonio Detroit Pistons en það hefði verið ömurlega leiðinlegt. Það var alveg gaman að Cleveland komst í úrslit og ég held að deildin hafi viljað það,“ sagði Hörður.

Ungur LeBron James var aðalmaðurinn í þessu Cleveland-liði en helstu meðreiðasveinar hans voru Zydrunas Ilgauskas, Drew Gooden, Anderson Varejao og Larry Hughes.

„Þetta er lélegasta liðið. Það rétt slefaði í fimmtíu sigra og vann Detroit bara út af ómanneskjulegri frammistöðu LeBrons,“ sagði Hörður en innslagið úr Lögmáli leiksins má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. 

Lögmál leiksins verður á dagskrá á Stöð 2 Sport 2 klukkan 20:00 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×