Körfubolti

Kyrie Irving vill spila með Áströlum á Ólympíu­leikunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kyrie Irving  fagnar Ólympíugullinu í Ríó 2016 með þeim  Kevin Durant, DeMar DeRozan Harrison Barnes, Draymond Green og DeMarcus Cousins.
Kyrie Irving  fagnar Ólympíugullinu í Ríó 2016 með þeim  Kevin Durant, DeMar DeRozan Harrison Barnes, Draymond Green og DeMarcus Cousins. Getty/Vaughn Ridley

Kyrie Irving vill skipta um landslið. Hann hefur skipt margoft um félag á NBA ferli sínum en nú vill hann komast í nýtt landslið. Hann segist vera með góðan menn með sér að fá leyfi fyrir því.

Irving vill spila fyrir ástralska landsliðið á Ólympíuleikunum í Los Angeles 2028. Irving fæddist i Melbourne í Ástralíu þegar faðir hans var að spila þar körfubolta.

„Við erum að vinna í því einmitt núna. Við erum að reyna að komast að því hver sér besta leiðin fyrir mig til að fá leyfið. Það er fullt af pappírsvinnu framundan,“ sagði Kyrie Irving við blaðamenn á Stjörnuleiknum.

Hinn 32 ára gamli Irving hefur unnið Ólympíugull með bandaríska landsliðinu því hann var með liðinu á Ólympíuleikunum í Ríó 2016.

Hann hefur aftur á móti ekki komist í síðustu tvö Ólympíulið Bandaríkjamanna.

Til að fá leyfið þá þarf Irving að fá grænt ljós á þremur stöðum eða frá bandaríska sambandinu, FIBA og ástralska sambandinu.

„Auðvitað þarf bandaríska sambandið að taka ákvörðun. Ég er bara að reyna að gera það besta í stöðunni. Það væri frábært, ef ég segi eins og er, ef ég fengi að vera Ástrali á einhverjum tímapunkti á mínum ferli og spila fyrir ástralska landsliðið,“ sagði Irving.

Irving verður orðinn 36 ára gamall þegar næstu Ólympíuleikar fara fram. Þá gæti hann spilað með landsliði sem væri líka með NBA leikmenn eins og þá Dyson Daniels, Josh Giddey, Ben Simmons, Dante Exum og Josh Green.

Ástralar fengu bronsverðlaun á Ólympíuleikunum í Tókyó 2020 en enduðu í sjötta sæti á síðustu leikum þar sem þeir töpuðu fyrir sterku liði Serbíu í átta liða úrslitunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×