Fótbolti

Ó­trú­legur við­snúningur Lyon

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alexandre Lacazette, fyrirliði Lyon, spilaði sinn þátt í góðu gengi liðsins. 19 mörk og 3 stoðsendingar í 29 deildarleikjum.
Alexandre Lacazette, fyrirliði Lyon, spilaði sinn þátt í góðu gengi liðsins. 19 mörk og 3 stoðsendingar í 29 deildarleikjum. ANP/Getty Images

Framan af nýlokinni leiktíð stefndi allt í að Lyon myndi falla úr frönsku úrvalsdeild karla í knattspyrnu. Fjárhirslur félagsins hafa séð betri daga og virtist það vera ná til leikmanna liðsins sem voru í fallsæti í desember.

Lyon endaði tímabilið með 2-1 sigri á Strasbourg á laugardaginn var. Það var fjórði sigur liðsins í röð og tryggði það liðinu 6. sæti sem þýðir að það mun spila í Evrópudeildinni á næstu leiktíð. Það var fjarlægur draumur í desember þegar liðið var að berjast við að halda sæti sínu í deildinni.

Í desember voru leikmenn teknir á teppið af stuðningsfólki Lyon þegar sá sem stýrir helsta stuðningsmannahópi félagsins messaði duglega yfir leikmönnum eftir enn eitt tapið. Það virtist ekki ætla að hafa áhrif en þann 14. janúar tapaði liðið 3-1 fyrir Le Havre eftir að fá tvö rauð spjöld. Þann 26. júní tapaði liðið svo 2-3 fyrir Rennes.

Eftir það small eitthvað og liðið fór að vinna leik eftir leik. Liðið tapaði aðeins tveimur af síðustu 18 leikjum sínum í deild og bikar. Sá árangur skilaði liðinu upp í 6. sæti deildarinnar og alla leið í bikarúrslit þar sem Frakklandsmeistarar París Saint-Germain bíða.

Takist liðinu að vinna PSG væri það fyrsti bikar karlaliðs Lyon í meira en áratug. Liðið varð síðast bikarmeistari vorið 2012 og síðast Frakklandsmeistari vorið 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×