Erlent

Aldraður eðlis­fræðingur sendur í gúlagið fyrir land­ráð

Kjartan Kjartansson skrifar
Vísindamaðurinn eyðir líkleglega því sem eftir er ævi sinnar í rússneskri fanganýlendu. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti.
Vísindamaðurinn eyðir líkleglega því sem eftir er ævi sinnar í rússneskri fanganýlendu. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. Vísir/Getty

Rússneskur dómstóll dæmdi eðlisfræðing á áttræðisaldri í fjórtán ára í fanganýlendu fyrir landráð. Vísindamaðurinn er sagður hafa unnið að rannsóknum sem tengdust þróun hljóðfrárra flugskeyta.

Anatolíj Maslov er 77 ára gamall eðlisfræðingu. Hann er einn af nokkrum áberandi vísindamönnum sem rússnesk stjórnvöld hafa ákært fyrir landráð á undanförnum árum. Dómstóll í Sankti Pétursborg sakfelldi Maslov á bak við luktar dyr. Reuters-fréttastofan segir að Maslov hafi haldið fram sakleysi sínu.

Maslov og tveir samstarfsmenn hans hjá Khristianovich-stofuninni í fræðilegri og hagnýtri aflfræði í Síberíu voru handteknir og ákærðir fyrir landráð í fyrra. Þeir unnu að kennilegum undirstöðum þróunar á hljóðfráum flugskeytum sem gætu ferðast á allt að tíföldum hljóðhraða og komist í gegnum loftvarnarkerfi.

Málin gegn vísindamönnunum voru skilgreind sem háleynileg og réttarhöldin yfir þeim hafa því verið lokuð almenningi og fjölmiðlum. Staðarfjölmiðill þar sem vísindastofnun mannanna er staðsett sagði á sínum tíma að þeir væru sakaðir um að afhenda Kína ríkisleyndarmál.

Annar eðlisfræðingur, Valeríj Golubkin, var handtekinn og sakaður um að afhenda ónefndu Atlantshafsbandalagsríki ríkisleyndarmál árið 2020. Hann var dæmdur í tólf ára fangelsi fyrir landráð í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×