Erlent

Biden segir Ísraela sak­lausa af á­sökunum um þjóðar­morð

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Stjórnvöld vestanhafs ítrekuðu stuðning sinn við Ísrael í gær.
Stjórnvöld vestanhafs ítrekuðu stuðning sinn við Ísrael í gær. AP/Jacquelyn Martin

Joe Biden Bandaríkjaforseti var ómyrkur í máli í gær þegar hann tjáði sig um ákvörðun Alþjóðaglæpadómstólsins (ICC) um að gefa út handtökuskipanir á hendur leiðtogum Ísrael vegna átakanna á Gasa.

Aðalsaksóknari ICC, Karim Khan, greindi frá því í gær að hann hefði ákveðið að óska eftir því að handtökuskipanir yrðu gefnar út á hendur Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, og varnarmálaráðherranum Yoav Gallant.

Þá hefur hann einnig óskað eftir að gefnar verði út handtökuskipanir á hendur leiðtogum Hamas; Yahya Sinwar, leiðtoga Hamas á Gasa, Muhammad Deif, yfirmanni hermála, og Ismail Haniyeh, pólitískum leiðtoga Hamas sem dvelur í Katar.

Mennirnir eru allir sakaðir um stríðsglæpi og þrátt fyrir að Khan talaði ekki um þjóðarmorð í beiðnum sínum um handtöku Netanyahu og Gallant voru Bandaríkjamenn fljótir að ítreka þá afstöðu sína að Ísraelsmenn væru saklausir af slíkum ásökunum.

„Hermenn [Ísrael] vakna ekki á morgnana og fara af stað með skipanir um að myrða saklausa borgara í Gasa,“ sagði John Kirby, talsmaður Hvíta hússins í þjóðaröryggismálum, í gær.

Stjórnvöld vestanhafs hafa verið nokkuð afdráttarlaus í þeirri skoðun sinni að Ísraelsmenn þurfi að gera meira til að standa vörð um almenna borgar á Gasa og koma þeim til aðstoðar. Biden ítrekaði hins vegar að það stríð sem nú geisaði á svæðinu væri tilkomið vegna aðgerða Hamas.

„Leyfið mér að vera alveg skýr; við höfnum umleitan ICC eftir handtökuskipunum gegn leiðtogum Ísrael,“ sagði Biden í gær. „Hvað svo sem þessar handtökuskipanir kunna að gefa til kynna þá er ekki hægt að leggja Ísrael og Hamas að jöfnu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×