Erlent

Spán­verjar neita skipi með vopn innan­borðs um að leggja að bryggju

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Albares fundaði með utanríkisráðherra Bandaríkjanna í Washington í síðustu viku, þar sem Gasa var meðal annars til umræðu.
Albares fundaði með utanríkisráðherra Bandaríkjanna í Washington í síðustu viku, þar sem Gasa var meðal annars til umræðu. AP/Kevin Wolf

Stjórnvöld á Spáni hafa neitað skipi um leyfi til að leggja að bryggju þar sem um borð eru vopn á leið til Ísrael. Utanríkisráðherra landsins segir þetta í samræmi við afstöðu Spánar.

„Utanríkisráðuneytið mun kerfisbundið neita þessum skipum viðkomu af einni augljósri ástæðu,“ sagði José Manuel Albares við blaðamenn í Brussel í gær. „Mið-Austurlönd vantar ekki fleiri vopn, þau skortir frið.“

Að sögn samgönguráðherrans Óscar Puente er um að ræða skipið Marianne Danica, hvers áhöfn óskaði eftir leyfi til að leggja að bryggju í Cartagena 21. maí næstkomandi.

Samkvæmt El País siglir skipið undir dönskum fána en farmur þess eru 27 tonn af sprengjuefnum. Það lagði frá höfn í Chennai á Indlandi og áfangastaður þess er höfnin í Haifa í Ísrael.

Deilur standa nú yfir á Spáni vegna annars skips, Borkum, sem á að leggja að höfn í Cartagena í dag.

Stuðingsmenn Palestínu segja að um borð í Borkum séu vopn á leið til Ísrael en Puente hefur hafnað þessu og sagt að skipið sé að flytja hergögn til Tékklands.

Spánverjar hafa verið meðal þeirra Evrópuþjóða sem hafa gagnrýnt árásir Ísrael á Gasa hvað harðast og hvatt önnur ríki til að viðurkenna sjálfstæða Palestínu. Þá hafa þeir hætt vopnasölu til Ísrael.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×