Skoðun

Kjósum sam­einingu, ekki sundrungu

Helgi Ingólfsson skrifar

Það liggur í eðli embættis forseta Íslands að þar sitji vammi firrtur einstaklingur sem njóti óskoraðrar lýðhylli. Frambjóðandi til embættis forseta þarf að vera ærlegur og óumdeildur, laus við flím og flimtan, koma vel fyrir og vera hvers manns hugljúfi, búa yfir útgeislun og þó sýna hógværð, hafinn yfir flokkadrætti og skæklatog: Geta verið táknmynd sameiningar og aldrei sundrungar.

Og svo verður að segjast eins og er: Það er kominn tími til að kona gegni aftur þessu embætti. Nú eru að verða liðnir þrír áratugir síðan okkar ástsæla og farsæla Vigdís lét af störfum.

Margir eru kallaðir, en fáir útvaldir. Nú er mannvalið mikið og flestir frambjóðendur mannkostum gæddir. Einn úr þeirra röðum uppfyllir þó öðrum fremur ofangreind skilyrði og ber af sem gull af eiri. Halla Hrund Logadóttir er sá valkostur sem helstur frambjóðenda getur orðið óumdeilt sameiningartákn fyrir þjóðina.

Höfundur er rithöfundur, sagnfræðingur og fyrrverandi framhaldsskólakennari




Skoðun

Sjá meira


×