Handbolti

Fjórir frá vegna meiðsla: „Dagurinn ekkert frá­bær á skrif­stofunni“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Smá meiðslabras fyrir komandi leiki.
Smá meiðslabras fyrir komandi leiki. Vísir/Vilhelm

Aron Pálmarsson og Haukur Þrastarson tóku ekki þátt í æfingu íslenska karlalandsliðsins í handbolta í dag vegna meiðsla og verða að líkindum ekki með liðinu í komandi umspilsleikjum við Eistland. Tveir aðrir í þeirra stöðu eru einnig tæpir.

Aron hefur dregið sig úr hópnum en mætti þó á æfingu dagsins, í borgaralegum klæðnaði. Aron meiddist á fingri í leik FH við ÍBV á dögunum og tók ekki þátt í oddaleik liðanna í gær. Hann er einnig tæpur á nára. 

Haukur meiddist í bikarúrslitaleiknum í Póllandi í gær. Hann fékk þá tak í hnéð og er á leið í myndatöku. Hann fylgdist með æfingu dagsins af hliðarlínunni, líkt og Aron.

Elvar Örn Jónsson er einnig tæpur, sem og Þorsteinn Leó Gunnarsson og ólíklegt að þeir spili fyrri leikinn við Eistland á miðvikudag en þeir gætu þó náð síðari leiknum ytra um helgina.

Klippa: Ekki besti dagurinn á skrifstofunni

Allir leika þeir ýmist sem vinstri skytta eða á miðjunni og því töluvert um fjarveru í þeirri stöðu fyrir leikina. Elvar Ásgeirsson hefur verið kallaður inn í hópinn sökum meiðslanna.

„Dagurinn í dag var ekkert frábær á skrifstofunni. Haukur meiddist í gær, Þorsteinn meiddist í gær og Elvar er mjög tæpur fyrir leikinn á miðvikudaginn. Auðvitað vitum við stöðuna á Aroni sem er að öllum líkindum ekki með,“ segir Snorri í samtali við Stöð 2 fyrir æfingu dagsins í Safamýri.

„Þetta eru fjórir leikmenn sem vill svo óheppilega til að spila sömu stöðu sem eru líklega ekki með. Það er bara staðan,“ bætir hann við.

Snorri Steinn kallaði þá inn leikmenn úr Olís-deildinni til að fylla æfingahópinn í dag. Benedikt Gunnar Óskarsson, Einar Bragi Aðalsteinsson og Jóhannes Berg Andrason eru ekki í landsliðshópi Snorra en voru með á æfingu dagsins.

Ísland og Eistland mætast í fyrir umspilsleiknum í Laugardalshöll á miðvikudagskvöld. Liðin mætast í Tallinn á laugardag.

Fleira kemur fram í viðtalinu við Snorra sem er að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×