Enski boltinn

Mið­varða­mar­tröð Man United heldur á­fram

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Harry Maguire missir af síðustu leikjum tímabilsins ef marka má tilkynningu Man Utd.
Harry Maguire missir af síðustu leikjum tímabilsins ef marka má tilkynningu Man Utd. EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

Harry Maguire, miðvörður Manchester United og enska landsliðsins í knattspyrnu, verður frá keppni næstu þrjár vikurnar. Hann missir því af síðustu deildarleikjum Man United og líklega úrslitaleik ensku bikarkeppninnar. Þá gæti landsliðssæti hans einnig verið í hættu.

Það hefur hvorki gengið né rekið hjá Man United á leiktíðinni en liðið er fallið niður í 8. sæti eftir úrslit helgarinnar. Það getur þó lyft sér upp í 6. sæti með sigri á Crystal Palace annað kvöld.

Það mun þó reynast þrautin þyngri þar sem liðið er í sannkallaðri miðvarðakrísu. Þrátt fyrir að vera með sjö leikmenn í aðalliðshópi sínum þá endaði Erik Ten Hag á að spila brasilíska miðjumanninum Casemiro í miðverði í síðustu leikjum þar sem Lisandro Martínez, Victor Lindelöf, Raphaël Varane, Jonny Evans, Willy Kambwala og Luke Shaw eru allir að glíma við meiðsli.

Nú er ljóst að Harry Magurie verður frá næstu þrjár vikurnar en Man United staðfesti fregnirnar í dag, sunnudag. Hann missir því af leiknum gegn Palace á mánudag, gegn Arsenal um næstu helgi, gegn Newcastle United þann 15. maí og gegn Brighton & Hove Albion fjórum dögum síðar.

Það eru 20 dagar í bikarúrslitaleik Man United og Man City en ef marka má hversu lengi Maguire verður frá keppni má reikna með að hann missi einnig af þeim leik. Þá verður að teljast ólíklegt að Gareth Southgate, þjálfari Englands, taki meiddan mann með á EM en Southgate ber mikið traust til Maguire og gæti valið hann engu að síður.

Frammistaða Man United hefur án efa valdið Ten Hag miklum höfuðverk það sem af er leiktíð og virðist hann ekkert ætla að skána nú þegar það styttist í lok tímabils.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×