Enski boltinn

Enginn náð í fleiri stig en Mc­Kenna síðan hann tók við Ipswich

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
McKenna fagnar eftir að úrvalsdeildarsætið var í höfn.
McKenna fagnar eftir að úrvalsdeildarsætið var í höfn. Stephen Pond/Getty Images

Kieran McKenna hefur svo sannarlega svifið um á bleiku skýi síðan hann tók við Ipswich Town í ensku C-deildinni. Undir hans stjórn hefur liðið flogið upp um tvær deildir í því sem er hans fyrsta starf sem aðalþjálfari. Þá hefur enginn, ekki einu sinni Pep Guardiola, nælt í jafn mörg stig og McKenna síðan hann tók við stjórnartaumunum hjá Ipswich.

Hinn 37 ára McKenna starfaði fyrir yngri lið Tottenham Hotspur áður en hann færði sig til Manchester United árið 2016. Hann starfaði fyrst um sinn fyrir yngri lið félagsins en var hluti af þjálfarateymi aðalliðsins áður en hann færði sig til Ipswich árið 2021.

Hann tók við liðinu þegar það var á slæmum stað í C-deildinni en uppgangur þess hefur verið lyginni líkastur. Í dag, laugardag, tryggði liðið sér sæti í ensku úrvalsdeildinni tímabilið 2024-25. Þar hefur Ipswich ekki verið síðan árið 2002.

Ætla má að McKenna sé í guðatölu hjá stuðningsfólki Ipswich Town en um er að ræða fyrsta starf hans sem aðalþjálfari. Er hann eini þjálfarinn í sögu Englands sem hefur farið upp úr ensku C- og B-deildunum á fyrstu tveimur tímabilunum sem þjálfari.

Ekki nóg með það heldur hefur Ipswich alls nælt í 236 stig síðan McKenna tók við. Ekkert lið á Englandi hefur nælt í jafn mörg stig á þeim tíma. Manchester City hefur á sama tíma náð í 220 stig og Arsenal, undir stjórn Mikel Arteta, hefur náð í 204 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×