Erlent

For­seti Argentínu skýtur föstum skotum á spænsku ríkis­stjórnina

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Javier Milei, forseti Argentínu, er ekki þekktur fyrir að flýja af hólmi.
Javier Milei, forseti Argentínu, er ekki þekktur fyrir að flýja af hólmi. AP/José Luis Magana

Javier Milei, forseti Argentínu sakaði Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, og ríkisstjórn hans um að stofna spænskum konum í hættu og leiða fátækt og dauða yfir spænsku þjóðina. Þessi ummæli voru viðbrögð við ummælum Óscar Puente samgönguráðherra sem ýjaði að því Milei hefði neytt fíkniefna á meðan kosningabaráttu sinni stóð.

Þetta sagði forsetinn argentínski í yfirlýsingu sem hann birti á síðu sína á samfélagsmiðlinum X. Þar sagði hann jafnframt að ríkisstjórn Sánchez eiga þarfari hnöppum að hneppa en að gagnrýna sig og sagði Sánchez vera að steypa Spáni til glötunar með því að semja við aðskilnaðarsinna í Baskalandi og Katalóníu. Hann minntist einnig á spillingarmál sem skekið hefur Spán undanfarna daga.

El País greinir frá þessu.

Dómstóll í Madríd fyrirskipaði í síðustu viku rannsókn á hendur Begoñu Gómez, eiginkonu Pedro Sánchez, eftir kvörtun af hálfu þrýstihópsins Manos Limpias, hreinar hendur á íslensku. Sánchez íhugaði að segja af sér embætti forsætisráðherra í kjölfar ásakananna en ákvað að lokum gera það ekki.

Sósíalíski verkamannaflokkur Sánchez myndaði ríkisstjórn með aðskilnaðarflokkum í Baskalandi og Katalóníu í kjölfar síðustu þingkosninga þar í landi.

Spænska ríkisstjórnin gaf frá sér yfirlýsingu í dag þar sem fram kemur að hún „hafni algjörlega órökstuddum yfirlýsingum sem embætti forseta Argentínu lét falla. Þau samræmast ekki bróðurlega sambandi landanna tveggja og þjóða.“


Tengdar fréttir

Sánchez hættir við að segja af sér

Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar og formaður Sósíalistaflokksins, hefur ákveðið að segja ekki af sér. Hann hafði áður sagst vera að íhuga það sökum aðfarar hægriafla að sér og eiginkonu sinni.

Þúsundir hvöttu Sánchez til að segja ekki af sér

Þúsundir stuðningsmanna Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar og formanns Sósíalistaflokksins, komu saman á götum Madrídar í gær og hvöttu ráðherrann til þess að segja ekki af sér vegna meintrar spillingar sem eiginkona hans hefur verið sökuð um. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×