Skoðun

Ör­lætis­gerningur

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson skrifar

Í dómum Hæstaréttar í málum nr. 20/2023, 21/2023, 22/2023 og 23/2023, frá 27. mars 2024 (71. gr.), segir:

Samkvæmt öllu framansögðu fólst í raun í samkomulaginu einhliða ákvörðun fyrrverandi ríkislögreglustjóra um nærri 50% hækkun á grunnlaunum stefnda sem hvorki var í samræmi við kjara- né stofnanasamning. Samkomulagið fól í sér grundvallarbreytingu á samsetningu launa stefnda án þess að breyting yrði á starfslýsingu, starfsskyldum, fyrirkomulagi starfa eða vinnutíma hans. Engar viðhlítandi skýringar hafa verið gefnar á þessari ráðstöfun sem fól í sér örlætisgerningí þágu þeirra starfsmanna embættisins sem samkomulagið tók til.

Í sératkvæði tveggja hæstaréttardómara í þessum sömu dómum (9. gr.) segir:

Í ákvörðuninni fólst svo óvenjulegur örlætisgerningur af hálfu fyrrverandi ríkislögreglustjóra í þágu stefnda, en á kostnað Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, að stefndi mátti við undirritun samkomulagsins gera sér grein fyrir að fyrrverandi ríkislögreglustjóri færi með ákvörðuninni verulega út fyrir heimildir sínar til að breyta samsetningu launa og jafnframt til að skuldbinda áfrýjendur við þá ákvörðun til starfsloka hans.

Í Lögfræðiorðasafni Árnastofnunnar er örlætisgerningur skilgreindur með eftirfarandi hætti:

Skilgreining:  Löggerningur, oftast einhliða, þar sem löggerningsgjafi lætur e-ð af hendi eða lofar að gera það, án þess að gagngjald komi fyr­ir.

Skýring: Löggerningurinn markast því af örlæti löggerningsgjafans. Dæmi: Gjöf, dánargjöf og bréfarfur.

Nú þegar Hæstiréttur hefur slegið því föstu að fyrrverandi ríkislögreglustjóri hafi gefið stefndu hundruð milljóna króna úr ríkissjóði í gegnum Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins vaknar sú spurning hvað íslenska ríkið ætlar að gera til þess að endurheimta féð? Ég treysti að fjármálaráðherra og dómsmálaráðherra svari því. Eða eru fjármunir ríkissjóðs fé án hirðis?

Höfundur er hæstaréttarlögmaður




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×