Erlent

Segir fólk eiga rétt til mót­mæla en ekki til ó­reiðu

Samúel Karl Ólason skrifar
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, þegar hann ávarpaði þjóðina í dag.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, þegar hann ávarpaði þjóðina í dag. AP/Evan Vucci)

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, fordæmdi í dag ofbeldi sem hefði átt sér stað á mótmælum í háskólum víðsvegar um Bandaríkin. Hann sagði alla eiga rétt á friðsömum mótmælum en fólk hefði ekki rétt á því að valda óreiðu eða skemmdum.

Hann sagði að skemmdarverk, að fara inn í hús í óleyfi, brjóta rúður, koma í veg fyrir kennslustundir og útskriftir stúdenta félli ekki undir skilgreiningu friðsamra mótmæla.

Biden sagði friðsöm mótmæli mikilvæg í Bandaríkjunum en röð og regla þyrfti að ríkja.

Þá þvertók Biden fyrir að kalla út þjóðvarðlið til að binda enda á mótmælin.

Þetta sagði Biden í sjónvarpsávarpi í dag þar sem hann gerði þó enga tilraun til að útskýra eða verja afstöðu sína varðandi hernað Ísraela á Gasaströndinni, sem er ástæða þess að þessi mótmæli hafa átt sér stað.

Biden reyndi heldur ekki að gefa mótmælendum ástæðu til að hætta en sagði að ef þau færu yfir strikið við mótmælin, yrði þeim refsað.

Ávarpið má sjá í spilaranum hér að neðan.

Lögregluþjónar í óeirðabúnaði hafa brotið upp mótmæli í háskólum vestanhafs og handtekið nemendur sem hafa lagt undir sig húsnæði skóla. Minnst 132 nemendur hafa verið handteknir við UCLA-skólann í Kaliforníu.

Lögregluþjónar beittu meðal annars hvellsprengjum þegar þeir brutu upp mótmælin við UCLA og tóku niður tjaldbúðir sem höfðu myndast þar.

Sjá einnig: Hundruð lögreglumanna í viðbragðsstöðu vegna mótmæla í UCLA

Sambærileg atvik hafa átt sér stað í Columbia í New York, í Dartmouth í New Hampshire og Portland State háskólanum í Oregon.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×