Fótbolti

Courtois ekki með Belgíu á EM

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Courtois í leik gegn Kanada á HM 2022.
Courtois í leik gegn Kanada á HM 2022. Stefan Matzke/Getty Images

Markvörðurinn Thibaut Courtois verður ekki með Belgíu á Evrópumóti karla í fótbolta sem fram fer í Þýskalandi í sumar. Þetta staðfesti Domenico Tedesco, þjálfari Belga, í dag.

Hinn 31 árs gamli Thibaut Courtois hefur verið frá keppni allt tímabilið vegna meiðsla. Hann sleit krossband í vinstra hné síðasta sumar og þá meiddist hann nýverið á hægra hné.

Courtois var hins vegar á varamannabekk Real Madríd þegar liðið sótti Bayern München heim í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu. Þá er talið líklegt að hann standi vaktina í marki Real gegn Cádiz í La Liga, spænsku úrvalsdeildinni, um næstu helgi. 

Það virðist hins vegar ekki vera nóg fyrir Tedesco sem hefur nú staðfest að markvörðurinn myndi ekki fara með til Þýskalands þar sem aðeins leikmenn í góðri leikæfingu verða valdir í leikmannahóp Belgíu.

Courtois, sem hefur spilað fyrir Real og Atlético Madríd, Chelsea og Genk í heimalandinu á að baki 102 A-landsleiki fyrir Belgíu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×