Fótbolti

Lewandowski með þrennu er Barcelona kom til baka gegn Valencia

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leikmenn Barcelona fagna.
Leikmenn Barcelona fagna. EPA-EFE/Alejandro Garcia

Barcelona vann 4-2 sigur á Valencia í La Liga, spænsku úrvalsdeild karla í fótbolta, eftir að lenda undir í fyrri hálfleik. Það hjálpaði vissulega til að Giorgi Mamardashvili, markvörður gestanna, fékk rautt spjald fyrir að handleika knöttinn utan vítateigs í uppbótartíma fyrri hálfleiks.

Fermín López kom Börsungum yfir um miðbik fyrri hálfleiks en gestirnir svöruðu með tveimur mörkum. Hugo Duro jafnaði metin í 1-1 áður en Pepelu kom Valencia yfir með marki úr vítaspyrnu á 38. mínútu.

Það var svo þegar komið var vel yfir venjulegan leiktíma í fyrri hálfleik sem Mamardashvili fékk sendingu til baka, hann átti gríðarlega slæma fyrstu snertingu og missti boltann alltof langt frá sér.

Þegar sóknarmaður Barcelona komst í boltann og reyndi að vippa honum framhjá markverðinum þá fór boltinn í hendi markvarðarins sem fékk í kjölfarið rautt spjald þar sem hann var fyrir utan vítateig og án efa að koma í veg fyrir að Börsungar myndu jafna metin.

Heimamenn nýttu liðsmuninn til hins ítrasta. Robert Lewandowski jafnaði metin snemma í síðari hálfleik og kom Barcelona svo yfir á 82. mínútu. Í uppbótartíma gulltryggði hann þrennu sína og sigur Barcelona í uppbótartíma.

Lokatölur 4-2 og Barcelona nú með 73 stig í 2. sæti á meðan Valencia er í 8. sæti með 47 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×