Enski boltinn

Ten Hag segir sitt lið þrótt­mikið og eitt af þeim skemmti­legri í deildinni

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ten Hag og Kobbie Mainoo í leik gærdagsins.
Ten Hag og Kobbie Mainoo í leik gærdagsins. EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

Manchester United gerði 1-1 jafntefli við Burnley á heimavelli sínum Old Trafford í ensku úrvalsdeild karla í fótbolta í gær, laugardag. Erik ten Hag, þjálfari liðsins, fór ekki beint í frasabókina eftir leik en viðtal hans hefur þó vakið talsverða athygli.

„Við komum okkur í stöðu til að vinna leikinn og á löngum köflum vorum við með stjórn á leiknum. Það var aðeins í síðari hluta fyrri hálfleiks sem við gáfum færi á okkur, við vorum með fulla stjórn á restinni af leiknum. Við vorum í stöðu til að vinna leikinn en köstuðum því frá okkur,“ sagði Ten Hag súr eftir leik.

André Onana var dæmdur brotlegur innan vítateigs. Brotið minnti á þegar Onana klessti á leikmann Úlfanna í 1. umferð en þá var ekkert dæmt. Ten Hag var spurður út í líkindin.

„Ég get séð það, þetta var vítaspyrna en í hinum vítateignum sá ég að minnsta kosti þrjár vítaspyrnur,“ sagði Hollendingurinn og taldi augljóslega brotið á sínum mönnum í leiknum.

„Það er of mikill óstöðugleiki í dómgæslunni, ef við tökum sem dæmi vítaspyrnuna sem Aaron Wan-Bissaka fékk á sig í síðustu viku, af hverju var það ekki vítaspyrna í dag? Svo átti Alejandro Garnacho að fá að lágmarki eina vítaspyrnu.“

Garnacho í leik gærdagsins.James Gill/Getty Images

Man United er í 6. sæti með 54 stig, fimmtán stigum á eftir Aston Villa í 4. sæti og sex á eftir Tottenham Hotspur sem er sæti ofar. Það stefnir því allt í að Man United taki þátt í Evrópudeildinni á næstu leiktíð.

„Það er staðreynd málsins, það er ekki auðvelt að ná 4. sæti þegar þú ert svona langt eftir á. Við þurftum á sigri að halda. Undanfarnar vikur höfum við verið í stöðu til að vinna leiki en höfum kastað því frá okkur. Bilið er orðið of stórt miðað við hvar við erum á leiktíðinni.“

Um færin sem mótherjar liðsins fá

„Öll lið fá á sig færi. En þegar það er á móti okkur þá er það skrítið. Við sköpuðum fjölda færa að sama skapi. Við erum eitt þróttmesta og skemmtilegasta lið deildarinnar á þessu augnabliki.“

„Við sköpum fjölda færa og erum að spila góðan fótbolta, það var óþarfi að missa stjórn á leiknum. Við löguðum það í hálfleik og síðari hálfleikurinn var mun betri,“ sagði Ten Hag að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×