Fótbolti

Ivan Ton­ey á inn­kaupa­lista Manchester United

Siggeir Ævarsson skrifar
Toney í leik með enska landsliðinu
Toney í leik með enska landsliðinu Vísir/Getty

Framherjinn og veðmálafrömuðurinn Ivan Toney er sagður ofarlega á óskalista Manchester United en liðið hefur glímt við töluverða markaþurrð þetta tímabilið.

Mörkin hafa ekki beinlínis komið á færibandi hjá United þetta tímabilið en liðið hefur aðeins skorað 51 mark í 33 deildarleikjum, samanborið við 82 mörk hjá Arsenal, 75 hjá Liverpool og 76 hjá City. Raunar hafa aðeins níu lið skorað minna en Manchester United í ensku úrvalsdeildinni þetta tímabilið.

Toney, sem er leikmaður Brentford, var dæmdur í átta mánaða keppnisbann í maí á síðasta ári vegna 232 brota á veðmálareglum ensku deildarinnar en sneri aftur á völlinn í janúar og skoraði þá þrennu.

Toney á eitt ár eftir af samningi sínum við Brentford en hinn 28 ára framherji hefur vakið athygli ýmissa stórliða, svo sem Chelsea og Arsenal en launakröfur hans, 250.000 pund á viku, virðast fæla þau lið frá. Háar launakröfur hafa aldrei stöðvað United í að fá til sín leikmenn svo að líkurnar á að hann verði leikmaður liðsins í sumar verða að teljast ágætar. 

Verðmiðinn sem Brentford setja á Toney er talinn vera 50 milljónir punda.


Tengdar fréttir

Ton­ey skoraði í endur­komunni

Framherjinn Ivan Toney sneri aftur í lið Brentford í ensku úrvalsdeildinni eftir margra mánaða fjarveru en hann var dæmdur í leikbann af ensku úrvalsdeildinni þar sem hann hafði veðjað á leiki deildarinnar. Hann fagnaði endurkomunni með marki í 3-2 sigri á Nottingham Forest.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×