Skoðun

Varnar­garðar utan um fólkið í Grinda­vík

Guðbrandur Einarsson skrifar

Í síðustu viku fór tími Alþingis ekki í neitt nema að bíða eftir því að hulunni yrði svipt af nýrri (eða lítillega breyttri) ríkisstjórn. Önnur og mun mikilvægari verkefni voru látin sitja á hakanum. Verkefni eins og fjármálaáætlun, sem stýrir því hvernig tekjum ríkisins verði ráðstafað á næstu árum. Nú er loksins búið að leggja hana fram og samkvæmt henni er bara alls ekki ljóst hvernig þessi nýja gamla ríkisstjórn ætlar að fara betur með fé almennings og draga úr verðbólgu.

Eins hefur tafist að fylgja eftir fögrum orðum um aðstoð við Grindvíkinga. Það sem hefur verið gert hingað til er hvergi nærri nóg. Fjölmargir íbúar falla utan úrræðisins um uppkaup íbúðarhúsnæðis og smærri atvinnurekendur í bænum sitja í mörgum tilvikum eftir allslausir. Þá hefur bæjarstjórn Grindavíkur nú staðfest að skólahald mun ekki fara fram í Grindavík í haust.

Þetta er stór ákvörðun sem hefur mikil áhrif. Bætum við lögheimilisflutningum þeirra Grindvíkinga sem munu selja Þórkötlu húsnæði sitt þá er ljóst að fjárhagsstaða sveitarfélagsins verður gjörbreytt næsta vetur.

Fulltrúar margra smærri fyrirtækja í Grindavík hafa mætt á fund efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis og kynnt fyrir nefndinni fjárhagsstöðu fyrirtækja sinna. Það ætti ekki að koma neinum á óvart að staða þeirra sé orðin mjög slæm þegar þau hafa ekki getað verið með starfsemi frá því að hamfarirnar hófust eða í rúma fimm mánuði.

Ákall þessa fólks eftir liðsinni hefur engu skilað. Styrkir fyrir launum breyta því ekki að eigið fé þeirra brennur hratt upp. Það gefur augaleið að þú rekur ekki þjónustufyrirtæki án íbúa.

Þolinmæði Grindvíkinga er á þrotum og nú er svo komið að boðað hefur verið til mótmæla á Austurvelli vegna stöðunnar sem uppi er.

Það dugar ekki að byggja bara varnargarða utan um byggðina í Grindavík. Við þurfum varnargarða utan um fólkið sem þar bjó.

Höfundur er þingmaður Viðreisnar í Suðurkjördæmi.




Skoðun

Sjá meira


×