Enski boltinn

Hollywood-lið Wrex­ham upp um deild annað árið í röð

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Komnir upp annað árið í röð.
Komnir upp annað árið í röð. Wrexham

Ævintýri Wrexham virðist engan endi ætla að taka. Liðið komst í dag, laugardag, upp um deild annað árið í röð þökk sé ótrúlegum 6-0 sigri á Forest Green.

Uppgangur Wrexham hefur verið hreint út sagt ótrúlegur síðan Rob McElhenney og Ryan Reynolds festu kaup á félaginu í september 2020. Þá hafa þeir félagar komið félaginu á kortið með þáttunum Welcome to Wrexham þar sem fylgst er með liðinu innan og utan vallar.

Wrexham flaug upp úr fimmtu efstu deild á síðustu leiktíð og er nú komið upp úr fjórðu efstu deild þegar enn eru tvær umferðir eftir. Þetta var staðfest eftir magnaðan sigur á Forest Green í dag.

Elliot Lee kom Wrexham yfir á 17. mínútu áður en markamaskínan Paul Mullin tvöfaldaði forystuna skömmu síðar. Leikmaður gestanna varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark eftir rúmlega hálftíma og Mullin bætti við fjórða marki Wrexham fyrir lok fyrri hálfleiks.

Í síðari hálfleik skoruðu þeir Ryan Barnett og Jack Marriott. Lokatölur 6-0 og þökk sé úrslitum í öðrum leikjum er Wrexham komið upp um deild. Voru fagnaðarlætin gríðarlega er flautað var til leiksloka.

Wrexham er með 82 stig í 2. sæti League 2, ensku D-deildarinnar, eftir 44 leiki. Stockport County er á toppnum og þarf aðeins eitt stig úr síðustu þremur leikjum sínum til að tryggja sér sigur í deildinni. Alls fara þrjú lið beint upp úr D-deildinni og eitt lið eftir umspil sem liðin í 4. til 7. sæti taka þátt í.

„Ef þú hefðir sagt mér fyrir fáeinum árum að ég myndi vera grátandi gleðitárum yfir fótboltaleik í Norður-Wales þá værir þú Rob McElhenney. Til hamingju Wrexham, þetta er ævintýri lífs okkar,“ sagði Reynolds á X-síðu sinni, áður Twitter, að leik loknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×