Innlent

Vill að verk­lag við varð­veislu mynd­efnis á Hrauninu verði skoðað

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Umboðsmaður krefst einnig upplýsinga um endurskoðun verklags við líkamsleitir á föngum.
Umboðsmaður krefst einnig upplýsinga um endurskoðun verklags við líkamsleitir á föngum. Vísir/Vilhelm

Umboðsmaður Alþingis hefur beint því til Fangelsisins á Litla-Hrauni að skoða hvort ástæða sé til að koma á formlegu verklagi um varðveislu efnis úr öryggismyndavélum.

Þá áréttar hann hversu mikilvæg myndvöktun getur verið við að fyrirbyggja ómannlega eða vanvirðandi meðferð á frelsissviptum einstaklingum sem og við að hlífa starfsmönnum við óréttmætum ásökunum.

Í tilkynningu á vef Umboðsmanns segir að upplýst hafi verið að efni úr öryggismyndavélum fangelsisins eyddist jafnan sjálfkrafa að tiltekum tíma liðnum. Ef upp kæmu alvarleg atvik eða kvartað væri yfir einhverju sem sæist á mynd væru þær upptökur vistaðar.

„Umboðsmaður bendir á að með formlegu verklagi mætti einnig ná til tilvika þar sem fyrirséð sé að fangi kynni að verða ósáttur, s.s. vegna líkamlegrar valdbeitingar eða annarra inngripa af hálfu fangavarða,“ segir í tilkynningunni.

„Þá ítrekar hann fyrri ósk um að upplýst verði um lyktir endurskoðunar sem standi yfir á verklagi við líkamsleitir á föngum. Dragist hún á langinn þá verði hann upplýstir eigi síðar en 1. júlí 2024 um framvinduna ásamt skýringum á töfum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×