Veður

Fjórði sólríkasti vetur í Reykja­vík frá upp­hafi mælinga

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Veturinn var sólríkur, hlýr og þurr miðað við oft áður.
Veturinn var sólríkur, hlýr og þurr miðað við oft áður. Vísir/Vilhelm

Veturinn 2023 til 2024 var fjórði sólríkasti veturinn í Reykjavík frá upphafi mælinga. Sólríkara var veturna 1947, 2023 og 1966. Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar.

Alls mældust sólskinsstundir í Reykjavík 313,5 sem er 106,5 stundum yfir meðallagi. Marsmánuður var einnig verulega sólríkur í Reykjavík. Alls 68,2 stundum yfir meðallagi áranna 1991 til 2020.

Á Akureyri mældust sólskinsstundir vetrarins 134 eða 15,4 stundum yfir meðallagi síðustu áratuga.

Veðurfar marsmánaðar var sérstaklega tekið fyrir í færslu veðurstofunnar. Hann var sólríkari, þurri og hlýrri en oft áður. Þó var hann kaldari og úrkomusamari á norðanverðu landinu. Töluverð snjóþyngsli voru á norðan- og austanverðu landinu í lok mánaðar auk hvassvirðis sem ollu allnokkrum samgöngutruflunum og nokkrum fjölda snjóflóða í þokkabót.

Hér má sjá meðalhita marsmánaðar víða um landið.Veðurstofa Íslands

Meðalhiti í Reykjavík í mars var 1,7 stig sem er hálfu stigi yfir meðallagi síðustu áratuga. Á Akureyri var hann hins vegar -0,3 stig sem er nokkuð undir meðallaginu.

Hlýjast var á Suður- og Suðvesturlandi en kaldara á Norður- og Norðvesturlandi.

Meðalhiti mánaðarins var hæstur í Surtsey, 4,1 stig. Lægstur var meðalhitinn við Sátu norðan Hofsjökuls, -6,1 stig. Í byggð var meðalhitinn lægstur í Svartárkoti, -4,1 stig.

„Hæsti hiti mánaðarins mældist 12,4 stig í Húsafelli. Mest frost í mánuðinum mældist -22,3 stig á Mývatni og við Setur sunnan Hofsjökuls,“ kemur fram í færslu Veðurstofunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×