Erlent

Felldu þrjá slökkvi­liðs­menn með drónum í Karkív

Samúel Karl Ólason skrifar
Lík slökkviliðsmanns eftir drónaárásir í Karkív í nótt.
Lík slökkviliðsmanns eftir drónaárásir í Karkív í nótt. AP/George Ivanchenko

Að minnsta kosti fjórir létu lífið í nótt þegar sjálfsprengidrónum var flogið á tvö fjölbýlishús og orkuver í Karkív, næst stærstu borg Úkraínu. Rússar hafa látið sprengjum rigna yfir borgina á undanförnum vikum og valdið þar miklum skemmdum og mannfalli.

Notast var við svokallaða Shahed-dróna sem Rússar hafa keypt í miklu magni frá Íran. Tólf eru særðir og þar af þrír alvarlega, miðað við það sem haft er eftir ríkisstjóra Karkív-héraðs í frétt Reuters.

Karkív er ekki í nema um þrjátíu kílómetra fjarlægð frá landamærum Rússlands og hefur ítrekað orðið fyrir umfangsmiklum árásum frá því innrás Rússa í Úkraínu hófst. Rússar gerðu stórt áhlaup á borgina í upphafi innrásarinnar en varnir Úkraínumanna héldu og voru Rússar reknir á brott frá borginni.

Þrír slökkviliðsmenn eru sagðir meðal þeirra sem féllu í árásunum. Eftir að þeir og aðrir voru mættir á vettvang árásanna var fleiri drónum flogið að borginni.

Á ensku eru árásir sem þessar kallaðar „Double-Tap“ árásir og eru þær iðulega gerðar af hryðjuverkamönnum víðsvegar um heiminn og er þeim ætlað að valda miklu mannfalli meðal viðbragðsaðila sem bregðast við fyrstu árásinni. Rússar hafa einnig ítrekað verið sakaðir um að gera sambærilegar árásir í Sýrlandi í gegnum árin.

Undanfarnar vikur hafa nokkrum sinnum borist fregnir af svona árásum á viðbragðsaðila í Úkraínu.

Almannavarnir Úkraínu birtu í morgun myndband sem sýnir son eins slökkviliðsmanns sem dó gráta. Hann er einnig slökkviliðsmaður.

Vólódímír Selenskí, forseti Úkraínu, hefur lýst árásinni sem viðbjóðslegri og ítrekað áköll sín eftir fleiri loftvarnarkerfum og flugskeyti í þau loftvarnarkerfi sem Úkraínumenn hafa þegar fengið.

Eins og áður segir beindust árásirnar meðal annars að orkuveri í Karkív en um 350 þúsund manns voru án rafmagns eftir árásirnar.

Rússar hafa notað sífellt fleiri Shahed dróna gegn orkuinnviðum Úkrainu og hafa þeir einnig uppfært drónana.

Blaðamaður Economist í Úkraínu segir drónana fljúga hraðar og að þeir hafi verið málaðir svo erfiðara sé að skjóta þá niður.


Tengdar fréttir

Tónleikahöllin var nefnd sem mögulegt skotmark ISKP

Bandarískir embættismenn vöruðu rússneska kollega sína við því að tónleikahöllin í Crocus væri mögulegt skotmark vígamann Íslamska ríkisins í Khorasan, eða ISKP, rúmum tveimur vikum áður en fjórir menn myrtu þar minnst 144. Ráðamenn í Rússlandi hunsuðu viðvörunina og Vladimír Pútín, forseti, sagði nokkrum dögum fyrir árásina að Vesturlönd væru að reyna að kúga Rússland.

Bendla umdeilda rússneska sveit við Havana-heilkennið

Á undanförnum árum hafa nokkrum sinnum átt sér stað atvik þar sem bandarískir og kanadískir embættismenn og erindrekar verða fyrir óútskýrðum heilbrigðisvandamálum. Heyrnartap, ógleði, svimi og miklir höfuðverkir eru meðal þess sem fólk hefur fundið fyrir en fyrstu tilfellin greindust í sendiráði Bandaríkjanna í Havana á Kúbu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×