Fótbolti

Guar­diola hellti sér yfir Greal­ish eftir leik

Siggeir Ævarsson skrifar
Jack Grealish hlustar með andakt á Guardiola eftir leik
Jack Grealish hlustar með andakt á Guardiola eftir leik

Samskipti Pep Guardiola og Jack Grealish í leikslok eftir jafntefli Manchester City og Arsenal hafa vakið töluverða athygli en Guardiola virtist í fyrstu vera algjörlega brjálaður út í leikmanninn.

Var þetta fyrsti leikur Grealish í nokkurn tíma en hann hefur verið frá vegna meiðsla síðan í byrjun febrúar.

Guardiola virtist vera mjög heitt í hamsi. Hann talaði mikið með höndunum og virtist vera að hella úr skálum reiði sinnar yfir Grealish. En eftir því sem samskiptunum vatt fram virtist Grealish þó vera sammála því sem yfirmaður hans var að kvarta yfir.

Grealish kinkaði kolli nokkrum sinnum og að lokum ruglaði Guardiola föðurlega í hári hans. Hann fór svo og steig á milli þar sem Erling Haaland og Gabriel áttu í orðaskiptum. Þar ýtti hann Haaland í burtu og hélt áfram að ræða við Gabriel en hann og Haaland enduðu á að fallast í faðma.

Netverjar höfðu skiptar skoðanir á því að Guardiola væri að taka Grealish svona fyrir úti á miðjum velli og fannst framkoma hans ekki sérlega fagleg. Rifjuðu einhverjir upp atvik frá 2017 þar sem Guardiola hellti sér yfir Nathan Redmond, leikmann Southampton.

Síðar kom reyndar í ljós að Guardiola var að stappa stálinu í Redmond og hvetja hann til dáða en Guardiola sagði sjálfur eftir þá uppákomu að hann yrði að hemja tilfinningar sínar betur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×