Fótbolti

Leik­maður PSG biðst af­sökunar á að hafa deilt niðrandi efni um LGBTQ-einstaklinga

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Albert á ferðinni gegn BK Häcken í gærkvöld, fimmtudag.
Albert á ferðinni gegn BK Häcken í gærkvöld, fimmtudag. Christian Liewig/Getty Images

Hin tvítuga Korbin Rose Albert, leikmaður París Saint-Germain og bandaríska landsliðsins, kom sér í vandræði með því að deila niðrandi efni um LGBTQ-einstaklinga á samfélagsmiðlinum TikTok nýverið.

Albert var á skotskónum þegar París tryggði sér sæti í undanúrslitum Meistaradeildar Evrópu í gær, fimmtudag. 

Eftir leikinn baðst hún opinberlega afsökunar á að hafa deilt kristilegu efni á TikTok-reikningi sínum þar sem fram kom að samkynhneigð og að vera trans væri einfaldlega rangt.

„Ég vil biðjast innilegrar afsökunar fyrir gjörðum mínum á samfélagsmiðlum. Að líka við og deila efni sem er móðgandi, særandi og dónalegt var bæði barnalegt og ruddalegt af mér. Það var aldrei ætlun mín að særa neinn,“ sagði Albert meðal annars í yfirlýsingu sinni.

Áður hafði hún vakið athygli fyrir að birta myndband af sér og fjölskyldu sinni á 4. júlí, þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna, þar sem þau sögðu öll að fornöfn þeirra væru U.S.A. Eftir afsökunarbeiðnina er myndbandið hvergi að finna á samfélagsmiðlum leikmannsins.

Albert hefur spilað með PSG síðan á síðasta ári eftir að hafa klárað nám sitt við Notre Dame-háskólann í Bandaríkjunum. Þar lék hún með skólaliðinu, Notre Dame Fighting Irish. Hún er tvítugur miðjumaður sem kemur upprunalega frá Grayslake í Illinois í Bandaríkjunum.

Síðan hún gekk í raðir PSG hefur ferill hennar aðeins farið upp á við og er hún mikilvægur hlekkur í bandaríska landsliðinu. Ummæli hennar vöktu þá ekki mikla lukku hjá goðsögninni Megan Rapinoe sem er einn helsti talsmaður LGBTQ-samfélagsins ásamt því að vera ein besta knattspyrnukona sem Bandaríkin hafa alið.

„Hatur er það eina sem þú trúir á og krakkar eru takandi eigið líf út af hatri sem þessu,“ er meðal þess sem Rapinoe sagði um málið. Albert spilar í dag í treyju númer 15 hjá Bandaríkjunum. Númerið sem Rapinoe gerði ódauðlegt á sínum tíma. Endaði goðsögnin færslu sína á Instagram með „ykkar einlæg, númer 15.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×