Fótbolti

Barcelona ekki í vand­ræðum með Brann

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Barcelona skoraði þrívegis í kvöld.
Barcelona skoraði þrívegis í kvöld. Pedro Salado/Getty Images

Barcelona lagði Brann 3-1 í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu kvenna í knattspyrnu. Vann Barcelona einvígið samtals 5-2. Íslenska landsliðskonan Natasha Anasi sat allan tímann á varamannabekk Brann.

Börsungar lentu í vandræðum í Noreg en sigur kvöldsins var aldrei í hættu, ef eitthvað er var hann síst of stór. Aitana Bonmatí, besta knattspyrnukona í heimi, kom Barcelona yfir eftir undirbúning Esmee Brugts á 24. mínútu.

Var það eina mark fyrri hálfleiks en sænska landsliðskonan Fridolina Rolfö gerði endanlega út um einvígið þegar rétt rúmar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Hin norska Caroline Graham Hansen á þó allan heiðurinn að markinu.

Varamaðurinn Tomine Svendheim minnkaði muninn fyrir Brann þegar tuttugu mínútur lifðu leiks. Patricia Guijarro bætti þriðja marki Börsunga við þegar tvær mínútur voru til loka venjulegs leiktíma. Bonmatí með stoðsendinguna að þessu sinni en hin norska Hansen var aftur allt í öllu í aðdragandanum.

Evrópumeistarar Barcelona því komnar í undanúrslit þar sem Englandsmeistarar Chelsea bíða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×