Fótbolti

„Ég er til­búinn“

Valur Páll Eiríksson skrifar
José Mourinho vill þjálfa aftur í sumar.
José Mourinho vill þjálfa aftur í sumar. EPA-EFE/ANGELO CARCONI

José Mourinho er tilbúinn í næstu áskorun. Þessu greinir Portúgalinn frá í viðtali.

Mourinho var sagt upp sem þjálfara Roma á Ítalíu í lok janúar en hann hafði stýrt liðinu frá sumrinu 2021. Hann stýrði liðinu til sigurs í Sambandsdeild Evrópu á sinni fyrstu leiktíð, sem var fyrsti bikar félagsins í ellefu ár.

Félagið fór svo í úrslit Evrópudeildarinnar síðasta vor en tapaði þar fyrir Sevilla eftir vítaspyrnukeppni. Það hallaði undan færi á yfirstandandi leiktíð og tekin sú ákvörðun að láta Portúgalann fara.

Hann kveðst hins vegar tilbúinn í næsta verkefni.

„Ég er tilbúinn að byrja aftur. Oft þegar leiðir skilja við félag þarf að taka tíma í að hugsa málin og hvíla sig. Ég þarf þess ekki, ég var klár degi eftir að ég fór. Ég er tilbúinn,“ segir Mourinho í viðtali við Fabrizio Romano.

„Mér líður vel, ég er sterkur og virkilega tilbúinn. Ég elska þessa vinnu. En ég vil ekki velja rangan kost og get ekki valið hvað sem er bara vegna ástríðunnar sem ég hef fyrir því að byrja aftur. Ég þarf því að vera þolinmóður,“

„Yfirleitt gerist ekki margt í þjálfaramálum í mars eða apríl. Markmiðið er að byrja aftur næsta sumar,“ segir Mourinho.

Mourinho er á meðal sigursælari stjóra sögunnar og hefur rakað inn titlum með Porto, Chelsea, Real Madrid, Inter Milan og Manchester United. Það hefur hins vegar hægt á titlasöfnuninni síðustu ár og hefur hann ekki stýrt liði til deildartitils síðan 2015 þegar Chelsea vann ensku deildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×