Innlent

Ljósa­dýrð á himni í kvöld

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Það stefnir í sjónarspil á festingunni í kvöld að sögn Veðurstofunnar.
Það stefnir í sjónarspil á festingunni í kvöld að sögn Veðurstofunnar. Vísir/Vilhelm

Það viðrar vel til norðurljósa í kvöld að sögn vakthafanda hjá Veðurstofu Íslands og búist er við því að litrík og sterk norðurljós prýði festinguna í kvöld.

„Það var það sem kallast sólgos. Það þýðir að ógurlega mikið af ögnum sem koma af sólinni sem eru að skella á segulsviðinu. Það er það samspil sem býr til norðurljósin. Það er ástæðan fyrir því að búist er við mjög miklum norðurljósum í kvöld,“ segir vakthafandi í samtali við fréttastofu.

Samkvæmt sérfræðingunum á Veðurstofunni er spáð frekar mikilli norðurljósavirkni hér á landi en það sem er óvenjulegt í þessu tilfelli er hvað norðurljósin ná sunnarlega. Það gætu til dæmis sést til norðurljósa suður í Póllandi sem vakthafandi segir að komi alveg fyrir en sé ekki daglegt brauð.

Sævar Helgi Bragason, sérfræðingur við Náttúrufræðistofu Kópavogs sem er landsmönnum kunnugur undir nafninu Stjörnu-Sævar, birti í dag færslu á reikning sinn á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter, þar sem hann brýnir til landsmanna að horfa til himins í kvöld.

„Allir mælar á yfirsnúningi því kröftug kórónuskvetta er mætt og ber kröftuglega á segulsviðinu og andrúmsloftinu okkar. Það þýðir blússandi og litrík norðurljós í kvöld,“ segir Stjörnu-Sævar.

Hann segir að segulstormur af stærðinni 8 á Kp-skalanum sé í gangi en Kp-skalinn er notaður til að mæla segulvirkni í andrúmslofti Jarðar. Vefur Aurora Forecast lýsir því sjónarspili sem segulstormur af slíkri stærð veldur á Íslandi sem björtum, kvikum og litríkum norðurljósum sem sjást suður að fimmtugustu breiddargráðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×