Fótbolti

Neu­er verður fyrir­liði Þjóð­verja á heima­velli í sumar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Neuer á HM í Katar 2022.
Neuer á HM í Katar 2022. Dean Mouhtaropoulos/Getty Images

Markvörðurinn Manuel Neuer mun ekki aðeins verja mark Þýskalands á Evrópumóti karla í knattspyrnu næsta sumar heldur mun hann einnig vera fyrirliði þjóðar sinnar sem ætlar sér stóra hluti eftir að hafa ekki staðið undir nafni undanfarin stórmót.

Hinn 37 ára gamli Neuer er að glíma við meiðsli þessa dagana og gæti misst af fyrri leik Bayern München og Arsenal í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Julian Nagelsmann, þjálfari Þýskalands, hefur ekki miklar áhyggjur af meiðslunum en hann hefur staðfest að markvörðurinn muni vera fyrirliði Þjóðverja í sumar.

Þýskaland er í A-riðli ásamt Skotlandi, Ungverjalandi og Sviss. Ætla heimamenn sér stóra hluti en liðið hefur engan veginn staðið undir væntingum á undanförnum stórmótum.

Á HM 2022 í Katar komust Þjóðverjar ekki upp úr riðli sem innihélt Japan, Spán og Kosta Ríka. Sömu sögu er að segja af HM 2018 í Rússlandi en þá endaði Þýskaland á botni riðils sem innihélt Svíþjóð Mexíkó og Suður-Kóreu.

Á EM 2020 skriðu Þjóðverjar upp úr riðlinum en áttu aldrei möguleika gegn Englandi í 16-liða úrslitum. Nú er hins vegar komið að skuldadögum og ætlar Neuer sér án efa að leiða sína menn alla leið í úrslitaleikinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×