Enski boltinn

„Ég hata þau öll“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Íslandsvinurinn Sir Jim Ratcliffe mun án efa vera mikið í fréttum næstu misseri.
Íslandsvinurinn Sir Jim Ratcliffe mun án efa vera mikið í fréttum næstu misseri. Getty Images/Bryn Lennon

Sir Jim Ratcliffe, nýr minnihlutaeigandi Manchester United, skóf ekki ofan af því er hann var spurður hvaða lið hann vildi sjá vinna ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu. „Ég hata þau öll“ var einfaldlega svarið.

Ratcliffe og fyrirtæki hans INEOS keyptu fyrr á þessu ári 27,7 prósent hlut í Man United. Fékk Ratcliffe í kjölfarið yfirumsjón með öllu sem við kemur knattspyrnu hjá félaginu á meðan Glazer-fjölskyldan, sem er enn meirihlutaeigandi, fylgist með frá Ameríku.

Ratcliffe er þegar byrjaður að taka til á skrifstofu félagsins og reikna má með þónokkrum breytingum á leikmannahópi liðsins í sumar. Ratcliffe var í hlaðvarpsviðtali nýverið þar sem hann var spurður út í hina gríðarlega spennandi toppbaráttu ensku úrvalsdeildarinnar.

„Ég hata þau öll. Þau eru öll „óvinurinn. Ég gæti ekki mögulega valið eitt,“ sagði Ratcliffe fyrst en á endanum sagðist hann frekar vilja sjá Arsenal vinna titilinn heldur en Liverpool eða Manchester City. Þá hrósaði hann Arsenal fyrir að standa við bakið á Mikel Arteta en sá átti ekki sjö dagana sæla í upphafi þjálfaraferils síns hjá Skyttunum.

Hvort það gefi til kynna að Ratcliffe ætli að halda sig við Erik ten Hag verður ósagt látið en hann nefndi sérstaklega þolinmæði stjórnenda Arsenal þegar liðið endaði í 8. sæti fyrstu tvö tímabilin undir stjórn Spánverjans.

Hvað leikmannamál varðar þá vill Ratcliffe ekki sjá félagið eyða himinháum upphæðum í leikmenn á borð við Kylian Mbappé. Hann vill finna næsta Mbappé, næsta Jude Bellingham eða næsta Roy Keane. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×