Enski boltinn

Pep horfir til Lundúna í leit að eftir­manni Bernar­do Silva

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lucas Paquetá er sagður efstur á óskalista Manchester City.
Lucas Paquetá er sagður efstur á óskalista Manchester City. EPA-EFE/ISABEL INFANTES

Pep Guardiola telur Brasilíumanninn Lucas Paquetá best til þess fallinn að leysa Bernardo Silva af hólmi í liði Englands-, Evrópu og bikarmeistara Manchester City.

Hinn 26 ára gamli Paquetá hefur spilað frábærlega fyrir West Ham United síðan enska félagið festi kaup á honum árið 2022. Þar áður hafði hann spilað fyrir Lyon í Frakklandi og AC Milan á ítalíu sem og Flamengo í heimalandinu.

Paquetá var orðaður við Man City síðasta sumar en rannsókn á meintum veðmálabrotum hans þýddi að á endanum ákváðu ríkjandi Englandsmeistarar að festa kaup á Matheus Nunes, leikmanni Úlfanna. Sá er ættaður frá Brasilíu en leikur með Silva í portúgalska landsliðinu.

Paquetá hefur hins vegar spilað sem engill á þessari leiktíð og hefur til að mynda komið með beinum hætti að sjö mörkum í síðustu 10 leikjum Hamranna. 

Á vef ESPN er greint frá því að Pep Gurdiola sé viss um að Paquetá sé hinn fullkomni eftirmaður Bernardo Silva sem virðist vera á leið frá félaginu. Silva hefur verið orðaður við bæði Barcelona og París Saint-Germain.

ESPN greinir einnig frá að Paquetá sé með söluákvæði í samningi sínum við West Ham upp á 86 milljónir punda eða tæplega 15 milljarða íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×